Fjárlög 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 11:34:15 (2580)

2000-12-04 11:34:15# 126. lþ. 38.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 126. lþ.

[11:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í 10. tölul. brtt. á þskj. 396 er lögð til 100 millj. kr. hækkun á liðnum Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Hér er sem sagt lögð til allveruleg hækkun á framlögum Íslendinga til þróunarsamvinnu sem mundi koma þeim lið upp undir hálfan milljarð kr. Þó er ljóst að mikið vantar á að við Íslendingar leggjum til þessara mála með sambærilegum hætti og þjóðir með svipuð lífskjör. Hefur það lengi verið smánarblettur á frammistöðu okkar að þessu leyti á alþjóðavettvangi að framlög okkar til þróunarsamvinnu og tengdra viðfangsefna liggja langt undir þeim viðmiðunarmörkum sem alþjóðasamfélagið hefur sett sér fyrir margt löngu að velmegunarþjóðirnar eigi að leggja af mörkum til þessa málaflokks af hálfu opinberra aðila 0,7% af þjóðartekjum og af hálfu annarra 0,3%. Hlutfall Íslands hefur verið að rokka á bilinu 0,1% til 0,2% og er það auðvitað ekki vansalaust, herra forseti.