Fjárlög 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 12:31:26 (2606)

2000-12-04 12:31:26# 126. lþ. 38.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 126. lþ.

[12:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er vonandi ljóst að þessi atkvæðagreiðsla er ekki bara um breytingatillögur heldur er hún líka um allt fjárlagafrv. Það er því fullkomlega eðlilegt að biðja um atkvæðagreiðslur um einstaka liði sem menn vilja tjá hug sinn um.

Hér er lagt til, herra forseti, að heimila að selja flugafgreiðslur, þ.e. flugskýli eða flugvallabyggingar, á nokkrum flugvöllum þar sem áætlunarflug hefur að vísu lagst niður, en mér er spurn: Hver er meiningin með því að ríkið láti frá sér þessar eignir? Er ætlunin að þessir flugvellir verði með slíkum ráðstöfunum gerðir endanlega ónothæfir, t.d. gagnvart sjúkraflugi eða öðru slíku? Ég tel það fráleita ráðstöfun herra forseti, að þessar eignir ríkisins sem eru hluti af aðstöðunni á þessum flugvöllum verði seldar úr eigu ríkisins. Ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar.

Sömuleiðis vekur það mikla undrun að hér á að heimila að selja þjónustuhús Ferðamálaráðs við Gullfoss, nýlega byggingu sem komið hefur verið upp til þess að miðla upplýsingum og veita aðstöðu fyrir ferðamenn á því svæði. Hvort tveggja teljum við fráleitar ráðstafanir, herra forseti, og greiðum atkvæði gegn þessu en sitjum hjá við liðinn að öðru leyti.