Fjárlög 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 12:40:13 (2612)

2000-12-04 12:40:13# 126. lþ. 38.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 126. lþ.

[12:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við styðjum samkvæmt venju að fjárlagafrv. gangi til 3. umr. en það felur að sjálfsögðu ekki í sér efnislegan stuðning við þetta frv. Á því hlýtur ríkisstjórnin sjálf að bera alla ábyrgð. Um þetta frv. og aðstæður við afgreiðslu þess við 2. umr. má segja að þar sé allt undirorpið óvenjulegri óvissu. Það fer kannski vel á því þar sem óvissuferðir eru mjög í tísku um þessar mundir. Það má því segja að þetta séu óvissufjárlög samkvæmt tískunni.

Mér segir svo hugur, herra forseti, að þegar líður á næsta ár eigi eftir að koma í ljós að forsendur fjárlagaafgreiðslunnar eru að þessu sinni hæpnari en þær hafa verið um nokkurt árabil. Það er vegna þeirra breytinga sem flest bendir því miður til að séu að verða í efnahagsmálum okkar. Þetta held ég að sé ástæða til að leggja áherslu á, herra forseti, og þyrfti að athugast milli umræðna.