Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 15:45:56 (2620)

2000-12-04 15:45:56# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi koma að skýringum á tveimum atriðum varðandi nál. Talað er um frávik á fjárfestingum. Það frávik sem er í fjárfestingum er nær eingöngu fjárfesting erlendis sem hefur verið hér til umræðu við sendiráðið í Japan en ekki eru margar hækkanir á fjárfestingum innan lands á þeim vettvangi í þessum brtt. við 1. og 2. umr.

Það er rétt að sveitarfélögin eru mjög skuldsett. Hins vegar vil ég láta það koma fram að það á ekkert endilega við um öll sveitarfélög landsbyggðarinnar. Stóru sveitarfélögin, sem hafa miklar tekjur, eru sum hver jafnskuldsett. Það er afleiðing af byggðaröskuninni vegna þess að þau hafa lagt í miklar fjárfestingar vegna fólksfjölgunarinnar.

Varðandi svo aftur félagslega húsnæðiskerfið eiga þeir erfiðleikar við á landsbyggðinni eins og oft hefur komið fram í umræðunni en niðurstaða liggur ekki fyrir í því máli enn þá þannig að það kæmist inn í fjáraukalögin ef sú niðurstaða útheimtir bein framlög úr ríkissjóði.