Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 17:13:59 (2637)

2000-12-04 17:13:59# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[17:13]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum, nú orðið nokkuð mörgum árum, var borgarstjóri hér í Reykjavík sem var ábyrgur fyrir ýmsum framkvæmdum og áætlanagerð um þessar framkvæmdir, talsvert fjárfrekar framkvæmdir á borð við Ráðhúsið og Perluna. Í báðum þessum tilvikum var keyrt mjög harkalega fram úr áætlunum. Þessi borgarstjóri var einhvern tímann spurður að því hvernig menn hefðu borið sig að. Ég minnist þess að sjá borgarstjórann fyrrverandi fyrir framan Perluna segja og lýsa því á myndrænan hátt að menn hefðu sett puttann upp í loftið.

[17:15]

Viðkomandi maður er ekki lengur borgarstjóri í Reykjavík. Núna er hann hæstv. forsrh. Íslands og hann er einnig ábyrgur fyrir áætlanagerð og framkvæmdum. Nú hefur komið í ljós að puttinn er á sínum stað, puttinn er bara rekinn upp í loftið. Það sama hefur gerst með Þjóðmenningarhúsið og Ráðhúsið á sínum tíma að menn setja niður tiltekna dagsetningu. Það var meira að segja sett á ákveðna klukkustund hvenær ætti að opna Ráðhúsið á sínum tíma og síðan keyra menn samkvæmt því og ljúka verkinu, óháð öllum kostnaði. Nú hefur þetta gerst aftur, upphæðirnar eru heldur minni en það er ekki síður alvarlegt mál sem gerst hefur með Safnahúsið hér í Reykjavík en gerðist á sínum tíma með Ráðhúsið og Perluna. Hvað Safnahúsið snertir er framúrkeyrslan um 100 millj., húsið kostar um 100 millj. meira en fjárheimildir voru fyrir.

Herra forseti. Það kemur reyndar fram í fjáraukalagafrv. að fleiri aðilar en forsrn. eitt hafa farið fram úr áætlunum. Í 1. umr. um fjáraukalögin kom t.d. fram að utanrrn. færi fram á 50 millj. kr. hækkun til aðalskrifstofu og eins og sagði í greinargerð, með leyfi forseta, er í fyrsta lagi sótt um 30 millj. kr. til að mæta uppsöfnuðum kostnaði, m.a. vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, ráðgjafar og annarra útgjalda á árunum 1998--2000. Um er að ræða ófyrirséðan kostnað vegna varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna. Við 1. umr. fjáraukalaga kemur í ljós að Alþingi þarf að samþykkja 50 millj. kr. viðbótarframlag til aðalskrifstofu utanrrn. vegna uppsafnaðs kostnaðar. Við 1. umr. var rætt um 20 millj. kr. fjárveitingu vegna umframkostnaðar við þátttöku í heimssýningunni í Hannover.

Í þriðja lagi var óskað eftir 958 millj. kr. aukafjárveitingu sem skiptist á þrjú verkefni. Í fyrsta lagi var óskað eftir 800 millj. kr. fjárveitingu til kaupa á lóð og húsnæði fyrir sendiráð í Tókíó og eins og segir, með leyfi forseta:

Ríkisstjórnin ákvað í febrúar 2000 að opna sendiráð í Japan á næsta ári og --- síðan er þessi upphæð til þess að standa straum af þessum kostnaði. Í öðru lagi var farið fram á 110 millj. kr. fjárveitingu til kaupa á lóð og húsnæði fyrir sendiráð í Ottawa og síðan má telja til enn fleiri liði. Þetta var við 1. umr. fjáraukalaga, þetta voru fyrstu tillögurnar sem Alþingi bárust í tengslum við þessa löggjöf.

Síðan kom þáttur númer tvö, 2. umr. Nú skulum við aftur líta á utanrrn. sem áður hafði óskað eftir 20 millj. kr. viðbótarfjármagni til Hannover, vegna heimssýningarinnar í Hannover. Við 2. umr. er óskað eftir 18 millj. kr. til viðbótar, þá á að reiða fram 18 millj. kr. til viðbótar til þessa verkefnis. Enn er óskað eftir aukningu á framlögum til sendiráða. Lögð er til 23 millj. kr. hækkun á fjárheimild vegna uppgjörs á byggingarkostnaði sendiráðs Íslands í Berlín, sem sagt viðbótarframlag. Þetta var við 2. umr.

Herra forseti. Nú erum við stödd í 3. umr. og enn kemur meiri fjárbeiðni frá utanrrn. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Lögð er til 77,3 millj. kr. aukafjárveiting vegna aukins kostnaðar við sendiráð og fastanefndir.``

Síðan er það tilgreint örlítið nánar:

,,Hlutdeild ráðuneytisins í greiðslu skólagjalda, flutnings starfsmanna, sjúkrasjóðs og tungumálanáms hefur aukist á undanförnum árum umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir.``

Með öðrum orðum, 77,3 millj. til viðbótar núna við 3. umr. Síðan mætti telja fleiri liði til þar sem utanrrn. óskar eftir viðbótarframlagi.

Nú er viðbótarframlagið til heimssýningarinnar í Hannover sem sagt orðið 38 millj. kr. Það er byrjað á 20 millj. og síðan við 2. umr. koma 18 millj. til viðbótar. Svo ég endurtaki það, 50 millj. kr. til aðalskrifstofu við 1. umr. Síðan er bætt í, 77,3 millj. koma núna við 3. umr. Það eru því fleiri aðilar sem sýna litla ráðdeild með ráðstöfun fjármuna en forsrn. sem hefur keyrt þó svo harkalega fram úr að öllum blöskrar.

Herra forseti. Ég ætla alls ekki að halda langa ræðu. Ég vildi vekja athygli á því sem hér er að gerast, hvernig við hverja umræðuna er hlaðið á fleiri fjárveitingabeiðnum og ég hef aðeins stöðvast við utanrrn. eitt.

Ég ætla ekki að halda neina ræðu um verðmætamat þessarar ríkisstjórnar sem felldi það við atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga, að veita 800 millj. kr. framlag til húsnæðismála en staðreyndin er sú að hér er að skapast fullkomið neyðarástand á húsnæðismarkaði. Á sjötta hundrað manns er á biðlistum á suðvesturhorninu, 300 í bráðri neyð. Á sama tíma er verið að skera niður framlagið til stuðnings félagslegu leiguhúsnæði. Að sönnu koma auknar lánveitingar en félagslegur stuðningur er minni. Dregið er úr hinum félagslega stuðningi. Þetta var fellt. Þetta er sama upphæð og menn ætla að verja til kaupa á sendiráði í Tókíó. Síðan koma menn alltaf upp og segja: Ja, það er svo dýrt að kaupa sendiráð í Tókíó.

Mér finnst sannast sagna, herra forseti, að í gegnum þessi fjárlög og þessa umræðu sé að koma í ljós mjög óhugnanleg viðhorf sem bera vitni um það að hér er að skapast ekki aðeins misskipting heldur brenglað verðmætamat. Þetta er sama þingið og er búið að verja á annan milljarð til hátíðahalda vegna kristnihátíðar. Ég gagnrýndi þessar upphæðir þegar þetta var upphaflega rætt í þinginu og fannst þetta vera hneyksli sem væri þess vert að ræða í kirkjum landsins. Það var aldrei rætt, ekki hef ég orðið var við þá umræðu. Þetta eru sömu aðilar og skera síðan niður fjárveitingu og stuðning við þá sem búa við erfið kjör í landinu.

Hér sjáum við þetta og ætlast er til þess að við samþykkjum fjáraukalög með 800 millj. kr. framlagi í eina sendiráðsbyggingu --- þetta er svo dýrt, segja þeir. Ja, ég veit það ekki, það er kannski dýrt að halda sig í allra fínustu hverfunum í Tókíó, það má vel vera, en það þarf enginn að segja mér að það kosti 800 millj. kr. að slá upp íbúð utan um sendiráðsstarfsemi í Tókíó. Það þarf enginn að segja mér það, ekki nokkur maður.

Herra forseti. Mér finnst þetta æðiundarlegt verðmætamat sem hér kemur fram. Í þessu sambandi vil ég líka minna á að við ræddum um framlag til einstakra félagasamtaka, svona til að styrkja lýðræðislegt starf almannasamtaka og ég vakti athygli á hve litlum fjármunum væri varið til þessa starfs eða alls rúmum 39 millj. og 600 þús. kr. Ég held að það væri mjög brýnt að þetta framlag yrði aukið og það verulega.

Herra forseti. Mér finnst að við þessa umræðu komi fram brenglað verðmætamat og röng forgangsröðun hjá ríkisstjórninni. Fyrst hæstv. menntmrh. er staddur hér væri fróðlegt að hann upplýsti Alþingi um hvað fjármálastjóri Þjóðminjasafnsins, sem var látinn fara, var ábyrgur fyrir mikilli framúrkeyrslu. Finnst honum þá ekki það sama eiga að gilda um aðra aðila sem eru ábyrgir fyrir miklu meiri framúrkeyrslu, t.d. 100 millj. kr. framúrkeyrslu á Þjóðmenningarhúsinu? Mér finnst að hæstv. menntmrh. skuldi þjóðinni skýringar á þessu ef honum finnst að aðrar reglur eigi að gilda gagnvart embættismönnum sem keyra þarna fram úr en hæstv. ráðherrum sem eru ábyrgir fyrir þessari miklu framúrkeyrslu á Þjóðmenningarhúsinu eins og raun ber vitni. Ég bíð spenntur eftir að heyra skýringar hæstv. menntmrh.