Blindrabókasafn Íslands

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 17:36:35 (2642)

2000-12-04 17:36:35# 126. lþ. 39.5 fundur 177. mál: #A Blindrabókasafn Íslands# (verkefni og stjórn) frv. 154/2000, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[17:36]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, með síðari breytingum, frá menntmn.

Frumvarpið er byggt á tillögum stjórnar Blindrabókasafns Íslands sem byggjast á þeirri reynslu sem fengist hefur af gildandi lögum. Í máli fulltrúa Blindrabókasafnsins kom fram að þörf væri orðin á því að breyta lögunum til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa á starfsháttum safnsins og nefndi hann sem dæmi að farið væri að notast við fleiri miðla en lögin gerðu ráð fyrir.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að árið 1984, á fyrsta starfsári safnsins, voru útlán rúmlega 23 þúsund en 1998 voru þau 46 þúsund. Við umfjöllun um málið kom fram að starfsemi bókasafnsins hefði enda vaxið mjög og safnið í auknum mæli farið að þjónusta aðra en blinda, svo sem aldraða, lesblinda og aðra sem eiga við lestrarörðugleika að stríða. Þá kom fram að miðlun námsefnis hefði stóraukist hjá safninu og mikil aukning hefði orðið á því sviði í þjónustu við lesblinda. Nefndin vill leggja áherslu á mikilvægi þess að Blindrabókasafnið sinni þjónustu við lesblinda grunnskólanemendur jafnt sem framhaldsskólanemendur.

Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem tilgreind er á þskj. 368 og er til komin vegna breytingar á nafni fagfélagsins úr Bókavarðafélagi Íslands í Upplýsingu -- Félag bókasafns- og upplýsingafræða.

Herra forseti. Menntmn. er einhuga í afstöðu sinni til frv.