Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 18:16:32 (2647)

2000-12-04 18:16:32# 126. lþ. 39.9 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[18:16]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég var að vona, eftir að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur haft svo góða framsögu um afstöðu Samfylkingarinnar og sett fram allmargar spurningar til félmrh. um hinn nýja samning við Öryrkjabandalagið, að hann kæmi hér og svarað ýmsum af þeim spurningum áður en umræðan héldi lengra áfram. Hann hefur kosið að gera það ekki þannig að ég áskil mér allan rétt til að koma í ræðustól á ný þegar hann hefur svarað þeim spurningum sem fyrir hann hafa verið lagðar og bregðast við þeim eftir því sem þurfa þykir. En eins og ég segi hefði verið miklu betri ásýnd á þessu máli ef hæstv. félmrh. hefði komið og farið yfir samninginn eins og þingmaðurinn lagði til.

Þetta frv. er tvíþætt eins og fram kemur í umsögn um það. Annars vegar er hið hefðbundna ,,þrátt-fyrir``-ákvæði í 1. gr., sem varðar tekjur af sérstökum eignarskatti sem renna eiga til Þjóðarbókhlöðu og endurbóta menningarbygginga, þ.e. að allar tekjur umfram ákveðna fjárhæð, í þessu tilfelli 480 millj. kr., skuli renna í ríkissjóð á næsta ári. Auðvitað þekkjum við það og hefur verið nokkuð algengt, sérstaklega á samdráttartímum, að þessir fastbundnu tekjustofnar til ákveðinna verkefna hafa verið skertir og það hefur átt við jafnframt á liðnum árum um framkvæmdasjóðinn og erfðafjárskattinn og þó mismunandi eftir því hverjir hafa stjórnað í landinu.

Þrátt fyrir að fólk hafi þurft að taka þær ákvarðanir að skerða lögbundin framlög til ákveðinna þátta er ég alveg sannfærð um að í flestum tilvikum hefur ríkt von í brjóstum þeirra um að þegar betur áraði væri hægt að tryggja að framlögin rynnu til þeirra verkefna sem þeim var ætlað samkvæmt lögum. En nú hefur það gerst enn og aftur að hingað inn hafa komið frumvörp í tengslum við umræðu um fjárlög, ekki með ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum, heldur þar sem framlögin hafa hvert af öðru verið afnumin þar sem þessi sérstaki lögbundni tekjustofn til ýmissa verkefna hefur verið aftengdur með lögum. Núna, mitt í góðærinu, ákveður ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. að nú skuli því endanlega ljúka að erfðafjárskatturinn eigi að renna í framkvæmdasjóð. Ekki er beinlínis verið að leggja framkvæmdasjóðinn niður með lögum en raunverulega er verið að afnema hann þar sem hinn lögbundni tekjustofn er sleginn af.

Það er svo merkilegt, herra forseti, að í gær var 3. desember, alþjóðadagur fatlaðra, og væntanlega í tilefni þess dags setti hæstv. félmrh. fram þá viljayfirlýsingu sem hér hefur verið gerð að umtalsefni við Öryrkjabandalagið að reyna að mæta þörf fatlaðra fyrir sambýli á næstu fimm árum þar sem 209 manns séu á biðlistum eftir slíku húsnæði. Það er í dag, daginn eftir 3. desember, alþjóðadag fatlaðra, að við stöndum á hv. Alþingi og fjöllum um frv. þar sem verið er að slá af tekjustofninn í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Herra forseti, mér finnst þetta nokkuð kaldhæðnislegt og mér finnst að dagurinn í dag eyðileggi svo sannarlega ljómann sem féll um stund á hæstv. félmrh. þegar hann undirritaði viljayfirlýsinguna við Öryrkjabandalagið.

Það er umhugsunarefni að alveg öfugt við það sem áður var þegar menn beinlínis neyddust til þess að skerða lögbundna tekjustofna, að það er í bullandi góðæri sem menn í þessari ríkisstjórn ákveða að aftengja alla sérstaka tekjustofna. Hæstv. forsrh. orðaði það svo að það að vera með slíka eyrnamerkta tekjustofna til sérstakra verkefna græfi undan hagstjórnartækinu sem fjárlögin væru. Sem sagt það á bara að ákveða í hverjum fjárlögum hvað menn ætla að gera í hverju verkefni og það má alls ekki vera með lögbundna tekjustofna eða tryggja uppbyggingu með tekjustofnum, alveg sama á hvaða sviði það er. Þannig les ég orð hæstv. forsrh. og satt best að segja er ég ekkert undrandi yfir ræðum hans. Þetta er í takt við annað hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Ég verð að segja, herra forseti, af því að fyrst og fremst snýr þetta mál að erfðafjárskattinum og framkvæmdasjóðnum og þar með uppbyggingu í málefnum fatlaðra, að ekki hefur verið mikil reisn yfir aðgerðum hæstv. félmrh. í málefnum fatlaðra og Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur verið skorinn við trog í góðærinu öll þau ár sem hann hefur stjórnað í félmrn. Þess vegna er það fyrst og fremst táknræn aðgerð þegar hann stendur að því að afnema erfðafjárskattinn sem tekjustofn fyrir framkvæmdasjóðinn. Þess vegna er á vissan hátt áhugavert og stúdíunnar virði að um leið og hann afnemur tekjustofninn fyrir framkvæmdasjóðinn skuli hann gera þennan samning eða vera með þessa viljayfirlýsingu við Öryrkjabandalagið. Sérstaklega finnst mér það vera áhugavert vegna þess að sami hæstv. ráðherra hefur oftar en einu sinni lýst því yfir úr þessum ræðustól að hann geri ekki skuldbindandi samninga fram í tímann. Hann muni ekki koma með bindingu á fjármagni til einhverra verkefna eða gera samninga um útgjöld fram í tímann þegar hann verði e.t.v. ekki sjálfur eða flokkur hans í ríkisstjórn.

En nú hefur það gerst vegna þess að hæstv. ráðherra hefur enga tryggingu fyrir því að verða áfram eða að flokkur hans við völd í félmrn. að rúmum tveimur árum liðnum, en hann er að gera hér milljarða samning fimm ár fram í tímann. Ég er ekki andvíg því að ráðherrann geri slíkan samning en ég vek athygli á því að þetta er þvert á yfirlýsingar sem hann hefur gefið úr þessum ræðustól. Hann hefur notað þetta í umræðu um mál þar sem hann hefur ekki haldið áfram með verkefni sem hafa verið gerðir samningar um í félmrn. Þá hefur hæstv. félmrh. gjarnan nefnt að ósæmilegt sé að gera samninga fram yfir þann tíma sem maður sjálfur sé við völd og farið hörðum orðum um þá sem það hafa gert.

En nú getum við hin boðið hæstv. félmrh. velkominn í hópinn. Ég veit ekki hvort á að orða það þannig að hann þori að gera samning fram í tímann og vera með framtíðarsýn, það á ekki beinlínis við vegna þess að samningur hæstv. félmrh. virðist vera þannig að hann sé að tryggja það að aðrir haldi meira um taumana á þessum útgjöldum en ráðuneyti hans.

En, herra forseti, af því að spurt hefur verið um stofnframkvæmdirnar sem verða hjá Öryrkjabandalaginu og hvernig þeir þættir verði framkvæmdir og spurt hefur verið um leiguna og e.t.v. aukna rekstrarþætti við þessa framkvæmd, ætla ég, herra forseti, að láta nægja þær athugasemdir sem hafa komið fram af minni hálfu og hlusta á hæstv. félmrh. lýsa fyrir okkur samningnum eða viljayfirlýsingunni sem hann hefur sent frá sér um samstarf við Öryrkjabandalagið. Mér finnst fara vel á því af því að við höfum svo oft rætt þessi mál á hv. Alþingi og úr þessum ræðustól, að hæstv. félmrh. fari mjög skilmerkilega yfir það í hverju samningurinn er fólginn, ekki síst gagnvart þeim sem hlýða á umræðu á Alþingi og að þeir sem fylgjast með umræðu eða lesa hana síðar skilji um hvað er rætt hér. Þess vegna mun ég koma frekar síðar þegar hæstv. ráðherra hefur talað.