Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 18:27:03 (2648)

2000-12-04 18:27:03# 126. lþ. 39.9 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér hinn árlega bandorm eða ráðstafanir í ríkisfjármálum sem fylgir fjárlagafrv. Enn einu sinni er verið að ræða Framkvæmdasjóð fatlaðra sem hefur árvisst í tíð þessarar ríkisstjórnar verið skorinn niður, a.m.k. má segja að markaðir tekjustofnar sem hafa átt að renna til hans hafi verið skornir niður. Að þessu sinni eru tekjur sem koma til erfðafjársjóðs 607 milljónir en aðeins 235 milljónir skila sér til Framkvæmdasjóðs fatlaðra.

Reyndar er með þessu frv. lagt til að tekjur af erfðafjárskatti og erfðafé renni framvegis í ríkissjóð í stað þess að þessar tekjur fari til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ég minni á það að Samfylkingin gerði tillögu um það í fjárlagaumræðunni að allar markaðar tekjur skyldu að þessu sinni renna til Framkvæmdasjóðs fatlaðra en ekki urðu menn við því.

Aftur á móti verð ég að segja eins og er að ég fagna því samkomulagi sem hæstv. félmrh. gerði í gær í þá veru að eyða biðlistum. Ég tel að það sé mjög jákvætt. Hins vegar er það staðreynd að ef ríkisstjórnin hefði staðið við það að markaðir tekjustofnar færu til Framkvæmdasjóðs fatlaðra undanfarin ár, en það eru um 1,5 milljarðar sem hafa verið hafðir af sjóðnum á undanförnum árum í tíð þessarar ríkisstjórnar, þá stæðu menn ekki frammi fyrir þeim vanda sem við stöndum í dag þar sem mjög stór hópur fatlaðra er á biðlistum eftir úrræðum. En engu að síður er þetta jákvætt skref.

En það er auðvitað, eins og komið hefur fram í máli þeirra ræðumanna sem töluðu ásamt mér frá Samfylkingunni, hv. þingmanna Rannveigar Guðmundsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur, verið að vísa kostnaðinum á komandi kynslóðir. Það er verið að vísa þessu yfir á framtíðina. Vissulega er þarna engu að síður verið að stíga jákvætt skref til að leysa þann vanda sem málum var komið í. Ófremdarástand hefur verið í þessum málum, það þekkir hæstv. félmrh. jafn vel og við hin sem höfum verið að vinna í þessum málaflokki og það var orðið mjög brýnt að taka á því.

[18:30]

Aftur á móti er rétt að verið er að færa kostnaðinn að hluta til yfir á frjáls félagasamtök sem áður var á vegum ríkisins og á að vera á vegum ríkisins samkvæmt lögum þó svo að ríkið taki að sér reksturinn. Vissulega verður að segjast eins og er að þegar til umfjöllunar er niðurskurður á mörkuðum tekjustofnum til þessa málaflokks, þ.e. málefna fatlaðra, þá er auðvitað ákveðinn uggur í brjósti okkar þingmanna sem fjöllum um frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem á að fara að færa þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna. Menn óttast vissulega að fjármagn muni ekki fylgja þjónustunni þar sem þarna er stöðugt verið að skera niður.

Herra forseti. Hér liggja fyrir nokkrar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra, sem ég ætla ekki að endurtaka, frá þeim sem töluðu á undan mér. Ég ítreka að ég mun taka aftur til máls þegar hæstv. ráðherra hefur svarað þeim fyrirspurnum ef þau svör gefa ástæðu til frekari spurninga.