Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 18:42:41 (2650)

2000-12-04 18:42:41# 126. lþ. 39.9 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[18:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir viðbótarframlögum nú við afgreiðslu fjárlaga við 3. umr. til þess að hægt sé að standa við þetta samkomulag og hversu há fjárhæð þurfi að koma inn nú til viðbótar við 3. umr. til þess að hægt sé að standa við samkomulagið.

Í annan stað, þegar hæstv. ráðherra vísar í að reksturinn kosti 4,1 milljarð og vísar í nefnd sem var að skoða þetta mál sem komst að þessari niðurstöðu, var þá gert ráð fyrir svona miklum fjármagnskostnaði inni í rekstrinum eins og nú verður þegar ríkið þarf að fara að borga svo mikla leigu, leigu sem á að standa raunverulega undir stofnkostnaði? Það hlýtur að þýða að reksturinn mun blása mjög mikið út frá því sem nú er, og um það spyr ég: Er inni í þessu fjármagnskostnaður sem verður mjög mikill þegar leigan bætist við, þ.e. sá þáttur hennar sem snýr að stofnkostnaði við framkvæmdir?

Ég held að það sé mikilvægt að fá það upp gefið hvort hér sé ekki um gamlar tölur að ræða sem ekki tóku mið af þessari fjármögnun sem nú hefur verið kynnt í þessari viljayfirlýsingu.

Ég spurði ráðherrann líka hvort gert væri ráð fyrir öllum framkvæmdum sem núna eru í lögum um málefni fatlaðra, hvort þessi tala nái yfir það allt saman. Ég spurði líka ráðherrann hvort hann telji að sú dagsetning standist sem talað er um í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, þ.e. að yfirtaka á rekstri málefna fatlaðra muni eiga sér stað um þarnæstu áramót.