Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 18:46:31 (2652)

2000-12-04 18:46:31# 126. lþ. 39.9 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hæstv. ráðherra ætlar ekki að gera þetta í óþökk samtaka fatlaðra eða sveitarfélaganna. Þýðir þetta að ekki sé komið samkomulag um dagsetninguna varðandi flutninginn eftir eitt ár við sveitarfélögin?

Í annan stað verður að fá úr því skorið, og því mun ég beita mér fyrir í efh.- og viðskn., hvort hinn mikli fjármagnskostnaður sem verður með þessu fjármögnunarfyrirkomulagi verður tekinn inn í þessa tölu, 4,1 milljarð, sem ég er reyndar sannfærð um að sé ekki miðað við orð ráðherrans þegar hann segir að þetta hafi verið niðurstaðan fyrir nokkrum dögum og við erum að sjá þessa viljayfirlýsingu nú um helgina.

Í annan stað er ég ansi hrædd um það, herra forseti, eftir þessi orð ráðherrans að hann ætlar ekki að beita sér fyrir neinu viðbótarfjármagni við 3. umr. fjárlaga vegna þessa samkomulags eða viljayfirlýsingar að hér sé í reynd á ferðinni marklaust plagg vegna þess að við framkvæmum ekkert, hvorki í uppbyggingu né rekstri, nema því fylgi fjármagn. Svo einfalt er málið. Ef allt í einu er verið að tala um að leysa biðlistana á fimm árum, fækka jafnt og þétt, byrja væntanlega á næsta ári, kostar það töluvert í viðbótarrekstri. Ég nefndi það að hvert einasta sérhæft sambýli, og það er verið að tala um fimm, kostar 80--90 millj. að koma á fót fyrir utan reksturinn. Ég er ansi hrædd um að það þurfi að fara að fara vandlega ofan í það af hálfu efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar og af hálfu félmn. sem er með félagsþjónustufrv. til skoðunar hvað er raunverulega á ferðinni. Er þetta bara allt sýndarmennska sem er verið að setja á borðið í þeirri viljayfirlýsingu sem var verið að samþykkja? Ég hef a.m.k. ekki vitað annað, herra forseti, þegar verið er að fara í framkvæmdir og rekstur en að þá kosti það peninga en það á greinilega ekkert að setja til viðbótar núna við fjárlagaafgreiðsluna inn í reksturinn til að auka þjónustuna við fatlaða. Það verður svo sannarlega skoðað núna við meðferð fjárlagafrv. hvort hér sé eintóm sýndarmennska á ferðinni af hálfu hæstv. ráðherra.