Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 19:31:33 (2669)

2000-12-04 19:31:33# 126. lþ. 39.9 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[19:31]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ég ásamt þáv. heilbrrh. stóð að því að stefna að útskrift fatlaðra af Kópavogshæli. Án peninga, segir hæstv. félmrh. sem hefur rýrt Framkvæmdasjóð fatlaðra árum saman og lítið gert með útskriftir af Kópavogshæli en það mun ég ræða við hann þegar fyrirspurn til hans verður svarað, væntanlega fyrir jól. Hins vegar er ljóst að stöðugildi fylgdu frá Kópavogshæli og þau eru ígildi fjármagns í þessum málaflokkum.

Herra forseti. Íbúðalánasjóður á ekki að öllu leyti að lána fyrir húsum. Það þýðir að hússjóðurinn á annaðhvort að leggja út fyrir þeim sjálfur eða fá lán annars staðar og vextir hafa ekki enn verið ákveðnir.

Félmrh. talar enn í véfréttastíl. Hann hefur núna gert samning til fimm ára og varpað ábyrgðinni á aðra enda þorir sá sem situr á stóli félmrh. ekki að horfa fram í tímann og ganga út frá því að sjóðir sem komið hefur verið á laggir með lögum standi áfram.

Herra forseti. Af því að ég held að hæstv. félmrh. viti það ekki þá er starfsmannahúsið í Kópavogshæli eiginlega ekki lengur íbúðarhæft. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að félmrh. er alveg sama um það.