Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 13:46:09 (2678)

2000-12-05 13:46:09# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er mikill léttir fyrir okkur öll að heyra þá niðurstöðu sem varð í gær varðandi fiskimjöl og notkun þess í skepnufóður í Evrópu. Það er hins vegar rétt að fleiri blikur eru á lofti og þess vegna hafði verið tekin ákvörðun um það, áður en þetta mál reyndar hófst, að auka sýnatöku til þess að kanna díoxín. Ísland var reyndar eina ríkið sl. haust sem var tilbúið með áætlun um sýnatöku þegar díoxínmálin voru í umræðu og raunverulega hafa eldri sýni sem áður höfðu verið tekin og síðan verið rannsökuð, sýnt fram á hver staðan er hjá okkur. Í þessum efnum almennt förum við í framtíðinni að geta betur sýnt fram á stöðu okkar og þar með á þá sérstöðu sem við höfum í hreinum sjávarafurðum.

Varðandi það hvort herða þurfi eftirlit vegna blöndunar þá tel ég svo ekki vera. Ég held að eftirlitið hér sé mjög gott og það var m.a. eitt af þeim atriðum sem við sýndum fram á með gögnum í þessu máli að eftirlit hér á landi skilur algjörlega að dýramjöl og fiskimjöl. Blöndunin sem hefur verið í umræðunni átti sér stað erlendis eftir að mjölið hafði verið selt úr landi. Það verður auðvitað barátta um díoxínið. Hins vegar gefur skýrsla vísindamannanna sem nú liggur fyrir ekki tilefni til þess að sett verði sérstök mörk. Hún gerir hins vegar greinarmun á mjöli frá Evrópu og mjöli annars staðar frá en þar er það okkar að vinna markaðsvinnuna.

Varðandi fullvinnslu, þá er verið að vinna í þeim efnum. Ný skip eru að koma inn í flotann sem nýta uppsjávarfiska á annan hátt og það er vel.

Varðandi hins vegar það sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði, að vísindalegu rökin hefðu orðið ofan á, þá er það alls ekki rétt. Vísindalegu rökin urðu ekki ofan á. Það var hinn aukni meiri hluti sem hjálpaði í málinu og niðurstaðan varð vegna pólitísks hráskinnaleiks. Ef vísindalegu rökin hefðu orðið ofan á, hefði notkun á fiskimjöli í fóður til jórturdýra ekki verið bönnuð.