Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 13:48:35 (2679)

2000-12-05 13:48:35# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í ljósi þeirra viðbragða sem orðið hafa í mikilvægum markaðslöndum okkar í Evrópu fyrir fiskimjöl er afar nauðsynlegt að standa vel að öllu er að fiskimjölsframleiðslu lýtur hérlendis. Fiskimjöl er lítill hluti af mjölframleiðslu heimsins. Jurtamjöl ræður í raun heimsmarkaðsverði.

Árið 1999 voru flutt út frá Íslandi 235 þús. tonn af fiskimjöli, 62,5% af mjölinu fóru til landa Evrópusambandsins og 23% til Noregs. Af þeim 147 þús. tonnum af mjöli sem flutt voru út til Evrópusambandsins í fyrra frá Íslandi má áætla að tæplega 122 þús. tonn eða allt að 83% hafi verið notuð í annað fóður en fiskeldisfóður. Þetta þýðir tæplega 52% af öllu útfluttu mjöli frá Íslandi á árinu 1999. Því er afar mikilvægt að hérlendis verði vel að verki staðið og að við verðum á engan hátt tengd við ólöglegt athæfi, t.d. blöndun mjöls og/eða aðra misjafna framleiðslu.