Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 13:54:41 (2682)

2000-12-05 13:54:41# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Bann við sölu á fiskimjöli á Evrópusvæðinu hefði haft geigvænlegar afleiðingar á íslenskan sjávarútveg. Bann við sölu á því til kjötframleiðslu af jórturdýrum breytir viðskiptaumhverfinu mikið en ætti ekki að valda stóráföllum. Þó að við getum andað léttara er samt ástæða að spyrja hæstv. utanrrh. hvort möguleikar og aðstaða Íslendinga til að hafa áhrif á niðurstöðuna hafi að einhverju leyti verið takmarkaðri en t.d. Dana sem eru meðal stærstu mjölframleiðenda í Evrópu en eru aðilar að Evrópusambandinu og hvort hann sjái þá nokkrar leiðir til að tryggja virkari áhrif okkar á framgang mála af þessu tagi í framtíðinni. Full ástæða er til að spyrja vegna þess að annað sambærilegt mál er í aðsigi.

Í síðustu viku kom fram afar svört skýrsla um díoxín og PCB-innihald í fiskimjöli og lýsi framleitt í Evrópu og þann 14. desember verður það tekið fyrir hjá Evrópusambandinu hvort setja eigi hámark á þessi efni. Það er hætta á að mjöl frá Íslandi verði sett í flokk með öllu öðru mjöli framleiddu í Evrópu og það þar með útilokað frá mörkuðum þó að það hafi lægra díoxín- og PCB-innihald en mjöl sem framleitt er í Evrópu.

Þarna er mikil hætta á ferðum og full ástæða er til að fara yfir hvað hægt er að gera hér heima til að tryggja stöðu okkar við að verjast vandamálum af þessu tagi sem eru reyndar uppi í báðum þessum málum. Í umfjöllun málsins hefur komið fram að ekki eru nægilegar vottaðar upplýsingar tiltækar til að sanna gæði afurða úr fiskimjöli. Það vantar vottað framleiðsluferli sem sannar að engum öðrum framleiðsluvörum sé blandað í mjölið. Það vantar mælingar á efnainnihaldi sem sanna að öllum kröfum sé fullnægt um eftirlit með eiturefnainnihaldi og það er líka nauðsynlegt að hafa gagnsæjar reglur um öll matvæli úr jórturdýrum sem ætluð eru til sölu í Evrópu svo hægt sé að sanna að kjötmjöl hafi ekki verið notað við framleiðslu þeirra.