Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:01:39 (2685)

2000-12-05 14:01:39# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna þeim árangri sem náðst hefur í þessu mikilvæga máli. Ég vil líka vekja athygli á því að nú er Evrópusambandið að sigla í kjölfar þess sem gert var á Íslandi fyrir 22 árum þegar Íslendingar tóku þá ákvörðun að banna notkun beinamjöls í fóður jórturdýra. Þannig höfum við Íslendingar stundum verið á undan og eigum að vera á undan og eigum að viðurkenna það í mörgum málum.

Fyrst og fremst kem ég hér enn og aftur til að harma málflutning hv. þm. Þuríðar Backman. Gróa gamla á Leiti var til. Hún kunni aðferðirnar.

  • Láttu það svona í veðrinu vaka,
  • þú vitir að hann hafi unnið til saka.
  • Málflutningur fólks sem fer fram með þeim hætti að reyna að líkja Íslandi við Evrópu, reyna að líkja Noregi við Evrópu hvað kúariðu varðar, er vítaverður vegna íslenskra hagsmuna. Ísland og Noregur eru þar með sérstöðu. Þess vegna eigum við að fagna þeirri stöðu sem við Íslendingar höfum og við eigum að nýta okkur þá stöðu til að bæta kjör fólksins í landinu og hafa áhrif á heiminn en ekki að stunda þann málflutning sem því miður kom úr þessari átt að þessu sinni, að skaða íslenska hagsmuni, að skaða íslenskan landbúnað, að skaða íslenska náttúru, heldur eigum við að hafa sannleikann að leiðarljósi og ekki að stunda ómerkilegan málflutning í garð heiðarlegra stjórnmálamanna.

    Ég harma þennan málflutning. Hann er ekki að koma fram í fyrsta sinn. Hann er sagður með sama hætti í þriðja sinn. Hann er sagður í Morgunblaðinu í dag, hann er sagður til þess að reyna að vekja pólitískar deilur til þess að ausa menn sem hafa staðið heiðarlega að málflutningi sínum auri. Ég harma það. Ef vinstri grænir halda að þetta sé ávinningur til þess að eiga hylli kjósesnda, þá eru þeir á svartri og rangri leið.