Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:12:13 (2690)

2000-12-05 14:12:13# 126. lþ. 40.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, JB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fjáraukalög fyrir árið 2000 koma nú til lokaatkvæðagreiðslu. Ljóst er að þau spegla mikla óvissu og þenslu í efnahagslífi landsins á árinu. Fulltrúar Þjóðhagsstofnunar upplýstu á fundi fjárln. í morgun að viðskiptahalli ársins væri áætlaður 61 milljarður og enn hærri á næsta ári.

Hér eru til afgreiðslu nokkrar tillögur til aukinna útgjalda. Í flestum tilvikum er verið að styrkja góða málaflokka í fjárþröng sem í sjálfu sér væri hægt að styðja.

En varðandi frv. í heild er í flestum tilvikum búið að taka ákvarðanir og skuldbinda greiðslur þegar erindin koma fyrir þingið. Ég hef ítrekað í umræðunni bent á nauðsyn þess að taka beri upp aðra skipan við að afgreiða fjáraukalög. Það eigi að afgreiða fjáraukalög að vori og svo aftur að hausti ef nauðsyn krefur. Þannig getur Alþingi ákveðið útgjöldin fyrir fram og komið að ákvörðun þeirra en ekki eftir á eins og við nú stöndum frammi fyrir.

Herra forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vísa ábyrgð á framkvæmd fjárlaga á ríkisstjórnina og meiri hluta hennar og munu sitja hjá við afgreiðslur á tillögum meiri hlutans og frv. í heild.