Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:18:47 (2691)

2000-12-05 14:18:47# 126. lþ. 40.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Brtt. sú sem er næst á dagskrá laut að því að taka af allan vafa um að andvirði þeirra fjármuna sem kynnu til að falla við sölu á jörðum eða jarðeignum í eigu Skógræktar ríkisins skyldi varið í þágu Skógræktarinnar og ekki til annarra verkefna. Þetta væri gert til að tryggja að ráðstöfun þessa fjár væri í fullu samræmi við gjafabréf og vilja eigendanna.

Í umræðunum í gær gaf hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., þær skýringar á þessu máli að það væri skilningur fjárln. að heimildirnar yrðu eingöngu notaðar með þeim hætti. Ekki stæði til að ráðstafa fjármunum, sem kynnu að koma til við sölu á jarðeignum í eigu Skógræktarinnar, öðruvísi en í hennar þágu. Með vísan til þeirra skýringa tel ég að þessu máli sé borgið og kalla tillöguna aftur.