Útflutningsráð Íslands

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:41:19 (2700)

2000-12-05 14:41:19# 126. lþ. 40.8 fundur 324. mál: #A Útflutningsráð Íslands# (markaðsgjald) frv. 167/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Munurinn á því sem hv. þm. nefndi og því að styrkja nefndir og ráð úti í bæ er að hann talaði um það sem heitir víst ríkið. Alþingi hefur eftirlitsskyldu og skattalagaheimild og á að beita henni mjög varlega. Við þingmenn erum einmitt í því hlutverki að gagnrýna framkvæmdarvaldið þegar það fer fram úr úr á fjárlögum. Við leggjum á skatta og gefum fjárheimildir. Okkur er því í lófa lagið, ef okkur sýnist svo, að stöðva slíkar framkvæmdir, framkvæmd sem ég var reyndar á móti. Ég held að ég hafi verið eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn ævintýrinu hér handan við Austurvöll. Ég greiddi atkvæði gegn því en hv. Alþingi ræður því, meiri hlutinn. Mér finnst það þannig engan veginn sambærilegt við það sem ég nefndi um félagasamtök einstaklinga úti í bæ sem aðrir eru skyldaðir til að greiða skatta til.