Útflutningsráð Íslands

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:42:58 (2702)

2000-12-05 14:42:58# 126. lþ. 40.8 fundur 324. mál: #A Útflutningsráð Íslands# (markaðsgjald) frv. 167/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég kemst heldur ekki hjá því að greiða þann kostnað. Það sem verra er, ég kemst heldur ekki hjá því að flytja inn í þennan ósóma.

Ég flutti á sínum tíma inn í skrifstofu sem kostaði 7,5 millj. stykkið. (Gripið fram í.) Ég var ekkert spurður að því hvort ég vildi svona óskaplega dýra skrifstofu sem þess utan er frekar lítil og óásjáleg, ekkert úr gulli og palisander. Nú veit ég ekki hvernig þessi nýja aðstaða er en ég greiddi atkvæði gegn henni. Ég verð hins vegar að hlíta þeim vilja meiri hluta Alþingis að flytja inn í það slot þegar það verður tilbúið.

Það er svo með margt fleira sem ég og hv. þm. greiðum skatta til eins og aðrir landsmenn, að menn eru kannski ekki sáttir við það sem þeir greiða skatta til, hvað gert er við peningana. Til þess höfum við kosningar á fjögurra ára fresti að kjósandinn geti þá kosið nýja menn sem eru þá ekki eins útgjaldaglaðir.