Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:56:46 (2707)

2000-12-05 14:56:46# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig er að það er varla hægt að leggja á einn einasta skatt á Íslandi án þess að hann komi með einum eða öðrum hætti fram í pyngju launafólks, hvort sem það hefur háar tekjur eða lágar. Ég hygg að fáir skilji það betur en einmitt launafólk, kannski helst þeir sem hafa kannski ekki úr allt of miklu að spila, hve nauðsynlegt er að láta útgjöld og tekjur standast á. Ég held þess vegna að á engan hátt hægt sé að túlka orð mín þannig að ég eða meiri hlutinn sé að storka launafólki. Það er unnið að ýmsum öðrum breytingum í skattamálum á sama tíma sem gera það að verkum að barnafólk fær hærri barnabætur og ýmislegt annað. Í heild er ekki verið að hækka skattbyrði heldur mun hún frekar fara lækkandi.

Hins vegar er afar athyglisvert að hv. þm. kemur hér og ræðir um væntanlega niðursveiflu í efnahagslífinu. Á sama tíma kemur gagnrýni frá hv. samflokksmönnum hans um að hér sé allt of mikill viðskiptahalli, allt of mikil þensla og ríkið eigi að bregðast við því með því að beita meira aðhaldi í ríkisrekstrinum. Það verður að vera einhver samkvæmni í því sem menn segja. Það er ekki hægt að segja annars vegar: Ja, það er komin bullandi niðursveifla. Og svo: Helsta vandamál þjóðfélagsins er viðskiptahalli. Hvað á maður að hugsa þegar maður hlustar á slíkt úti í sal?