Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:58:47 (2708)

2000-12-05 14:58:47# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn. en undir minnihlutaálitið skrifa ásamt mér hv. þm. Ögmundur Jónasson og Rannveig Guðmundsdóttir.

Í umfjöllun efh.- og viðskn. um þetta mál má segja að mest áhersla hafi verið lögð á áhrif þessarar almennu skattahækkunar sem ríkisstjórnin beitir sér nú fyrir á einstaka tekjuhópa í þjóðfélaginu og ekki síður á kjarasamninga. Um það var mjög hart tekist á í efh.- og viðskn. en frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. sér ekki ástæðu til að eyða einu orði á áhrif þeirrar almennu skattahækkunar á kjarasamninga eða kjör launafólks. Honum kemur það bara hreinlega ekki við, herra forseti. Helst má ætla af því að hann eyðir ekki í það einu einasta orði í ræðustól og allur meiri hlutinn í efh.- og viðskn., þ.e. sex nefndarmenn, eyða ekki einu orði í það í nefndaráliti sínu að ASÍ hafi óskað eftir að koma á fund nefndarinnar þar sem aðalmálflutningur þeirra var að þessi fyrirætlun ríkisstjórnarinnar mundi grafa undan kjarasamningum, að ríkisstjórnin ætli að ganga á bak orða sinna í yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga fyrr á þessu ári. Um þetta segja þeir ekki eitt einasta orð, herra forseti. Þetta eru vinnubrögð sem mér líkar ekki. Mér finnst þetta vanvirða við heildarsamtök launafólks, bæði ASÍ og BSRB, sem hafa sérstaklega ályktað í þessu máli.

[15:00]

Herra forseti. Af því að þungamiðjan í starfi nefndarinnar var að fjalla um áhrif þessarar skattahækkunar á kjör launafólks og kjarasamninga sem voru gerðir í marsmánuði á þessu ári og vegna þess að inn í þá umræðu og þá umræðu sem hér fer fram í dag mun blandast yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á árinu 2000, þ.e. hvaða áhrif þessi breyting hefur á skattleysismörk sem ríkisstjórnin gaf sérstaka yfirlýsingu um í tengslum við kjarasamninga --- en undir þá yfirlýsingu rita tveir hæstv. ráðherrar, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson --- þá vil ég spyrja hæstv. forseta hvort þessir tveir hæstv. ráðherrar séu hér í húsi vegna þess að nærveru þeirra er óskað við þessa umræðu, ekki síst í ljósi þess að fram kemur í gögnum sem ég er með fyrir framan mig að heildarsamtök launafólks halda því fram að þessir tveir ágætu heiðursmenn, tveir hæstv. ráðherrar og formenn stjórnarflokkanna, hafi gengið á bak orða sinna í tengslum við yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf vegna kjarasamninganna.

(Forseti (ÍGP): Forseti getur upplýst að hæstv. utanrrh. er í húsinu en ekki hæstv. forsrh.)

Nú erum við að tala um afar mikilvægt mál sem snertir forsendur kjarasamninga og það er ekki svo lítið í húfi, herra forseti, að kjarasamningarnir haldi og að þeim verði ekki sagt upp í febrúarmánuði næstkomandi með þeim afleiðingum sem það getur haft fyrir efnahagslífið. Ég tel því mjög æskilegt að það sé athugað hvort sá hæstv. ráðherra sem efnahagsmálin heyra aðallega undir, sá sem ber ábyrgð á þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með undirskrift sinni, hæstv. forsrh., jafnvel þó hann sé ekki hér í húsi, geti verið viðstaddur þessa umræðu. Ég fagna því hins vegar að hæstv. utanrrh. er hér í hliðarsal og mun hann væntanlega fylgjast með umræðunni sem hér fer fram.

(Forseti (ÍGP): Forseti mun láta kanna hvort unnt er að verða við þessari ósk þingmannsins.)

Ég þakka fyrir og mun eigi að síður, herra forseti, til þess að greiða fyrir umræðum halda áfram máli mínu í trausti þess að þessir tveir hæstv. ráðherrar sem óskað hefur verið eftir að verði viðstaddir umræðuna komi fyrr en seinna.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi máls míns blandast kjarasamningarnir mjög mikið inn í það mál sem hér er til umræðu. Ljóst er að í heildina má segja, eins og fram kemur í þessu nál. sem við þrjú skrifum undir, hv. þm. Ögmundur Jónasson og Rannveig Guðmundsdóttir auk mín, að í þessu frv. birtist aðferð ríkisstjórnarinnar við að bæta sveitarfélögunum það sem á hefur hallað í samskiptum ríkis og sveitarfélaga þar sem ríkisvaldið ætlar aðeins að lækka tekjur sínar í staðgreiðslunni um 0,33% eða 1.250 millj. kr. en heimilar sveitarfélögunum útsvarshækkun sem nemur 0,99%, það eru 3.750 millj. kr. En það er alveg ljóst að þar sem álagningarstofn fasteignaskatts verður fasteignamat, en það hefur áhrif til lækkunar á fasteignaskatti sem vegur upp útsvarshækkun fólks á landsbyggðinni, þó alls ekki að öllu leyti, fyrst og fremst auðvitað til þeirra sem eiga fasteignir, þá er ríkisstjórnin með þessari ákvörðun sinni fyrst og fremst að knýja fram aukna skattbyrði á íbúa höfuðborgarsvæðisins þar sem tekjuskattslækkunin vegur aðeins þriðjung, þ.e. sem við erum að fjalla um í þessu frv., af þeirri hækkun sem heimiluð er í útsvari á næstu tveimur árum. En auknar skattálögur á Reykvíkinga, svo dæmi sé tekið sérstaklega, vegna þessarar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar geta orðið 1.040 millj. kr. og væntanlega eru það milli 500--600 millj. sem munu bætast þar til viðbótar á aðra íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Ljóst er að ásamt öðru sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir sem rýrir kjör heimilanna þá mun þessi skattahækkun koma afar illa við heimilin í landinu og ekki síst ógna þeim forsendum sem nýlegir kjarasamningar byggja á.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar flutt brtt. við þetta frv. sem efnislega felur í sér að ríkið lækki hlut sinn í staðgreiðslunni til jafns við það sem sveitarfélögunum er heimilað að hækka útsvar sitt þannig að íbúar þessa lands verði jafnsettir á eftir, þ.e. að skattbyrðin aukist ekki.

Við þrjú sem skipum þennan minni hluta höfum einnig boðað, og það kemur fram í nál., að verði brtt. hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar og fleiri felld við 2. umr. málsins, muni minni hlutinn flytja brtt. við 3. umr. þess efnis að persónuafsláttur hækki til samræmis við áætlaðar launabreytingar þannig að fyrirhuguð skattahækkun sem ríkisstjórnin knýr nú fram raski ekki forsendum kjarasamninga og hagur launafólks verði tryggður.

Herra forseti. Þó að ég hafi hér fyrst og fremst nefnt hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. í því sambandi að viðveru þeirra sé óskað þá gerði ég að sjálfsögðu ráð fyrir því að hæstv. fjmrh., forsvarsmaður þessa frv., væri viðstaddur umræðuna. (Gripið fram í.) Ég sá ekki hæstv. ráðherra en fagna því að hann er hér í hliðarsal og vænti þess að hann hlusti þá á það sem ég hef fram að færa vegna þess að ég ætla að snúa mér næst að því að víkja að ummælum hæstv. fjmrh. Geirs H. Haardes sem voru viðbrögð hans við túlkun ASÍ á kjarasamningum, þ.e. þegar ASÍ hélt því fram opinberlega og á fundi nefndarinnar og í gögnum sem sett voru fram að skattahækkunin grafi undan forsendum kjarasamninga og tefla þeir því aðallega fram að þessi almenna skattahækkun muni breyta áformum sem voru sett fram í tengslum við kjarasamninga, þ.e. breytingar á persónuafslætti og skattleysismörkum.

Nú hefur hæstv. fjmrh. sett það fram að hann telji þessa túlkun Alþýðusambandsins afar ósanngjarna, eins og fram kemur í útdrætti sem ég hef úr fréttunum. Þar segir, með leyfi forseta, orðrétt:

,,Fjármálaráðherra segir gagnrýni verkalýðsforystunnar á stjórnvöld vegna yfirvofandi skattahækkana óréttmæta og snúast um smáaura.``

Og hann segir hér sé um að ræða sáralitlar skattgreiðslur.

Út í þetta vil ég aðeins fara vegna þess að ef um smáaura er að ræða fyrir ríkiskassann þá skilur maður náttúrlega ekki af hverju ríkisstjórnin getur ekki brugðist við og sett aukna peninga í persónuafsláttinn og skattleysismörkin til þess að komast hjá því að raska forsendum kjarasamninga. En nú hefur hans eigin skrifstofa, Fjárlagaskrifstofan, reiknað út að þessir smáaurar sem fjmrh. hæstv. nefnir svo, eru hvorki meira né minna á kjarasamningstímanum en 990 millj. Vel má vera að 990 millj. séu smáaurar í augum hæstv. fjmrh. En það eru ekki smáaurar í augum launafólks sem þarf að borga brúsann af uppgjöri á þessum fjárhagslegu samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þau gögn voru lögð fram í efh.- og viðskn. að sú röskun, sem ég vil kalla svo, á skattleysismörkunum með hækkun á skattbyrðinni og skattahækkun muni gera það að verkum að þegar á næsta ári muni fjölga í hópi skattgreiðenda um 2.100 manns sem má áætla að séu aðallega námsmenn, einstæðir foreldrar, lífeyrisþegar og tekjulágar fjölskyldur. Það er nú ekki svo lítið að vegna þessarar skattahækkunar muni fjölga um það í hópi skattgreiðenda.

ASÍ hefur einmitt reiknað út hvað hér eru á ferðinni miklir peningar, þ.e. hvaða áhrif þetta hefur á þær umsömdu hækkanir sem samið var um í kjarasamningum og þeir segja að árið 2003 hverfi rétt tæplega fjórðungur af almennri launahækkun þessa árs í skattahækkun eina. ASÍ lagði fram í nefndinni upplýsingar um lækkun ráðstöfunartekna á ári þar sem sett var upp tafla miðað við ákveðnar launasummur, 70, 90 og 110 þús. og alveg raunverulega upp í 500 þús. Þar kemur fram að verulegur hluti launahækkunar hverfur. Af um 70 þús. kr. launum eru það um 7.200 kr. á árinu 2003, þ.e. ef sveitarfélögin nýta sér að fullu þessa heimild til útsvarshækkunar. Þeir segja að hjá manni með 90 þús. kr. í laun hverfi þegar á næsta ári svo sem samsvarar launahækkun tæplega eins og hálfs mánaðar og á árinu 2002 launahækkun sem samsvarar launahækkun í 2,7 mánuði eða tæplega þrjá mánuði og svo hið sama árið 2003. Um þetta munar, herra forseti, og glöggt sést að áhrifin af þessu, þegar upp undir þriggja mánaða launahækkun hverfur á samningstímanum, eru engir smáaurar.

Ég minnist þess að þeir sem stóðu fyrir þessum kjarasamningum af hálfu heildarsamtaka launafólks höfðu nú ekki þökk allra fyrir að semja ekki um meiri launagreiðslur eða launahækkanir til launafólks en voru á ferðinni fyrr á þessu ári. Þess vegna vó örugglega þungt hjá forsvarsmönnum launafólks sem stóðu fyrir þessum kjarasamningum yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana sem var ekki síst um að skattleysismörk fylgi launaþróun, minnkaða tekjutengingu barnabóta og að greiðslur almannatrygginga hækki í takt við laun. Það er alveg ljóst að þetta mun raska skattleysismörkunum og þetta mun líka breyta verulega greiðslum til lífeyrisþega og þar með raska a.m.k. tveim af fimm töluliðum sem hér eru settir fram sem áttu að greiða fyrir kjarasamningum, eins og segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

[15:15]

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Ef hér er um smáaura að ræða, eins og hæstv. ráðherra setur fram, af hverju er þá ekki eðlilegra af því að þetta er eitt af því sem getur safnast í sarpinn til að koma í veg fyrir að kjarasamningarnir haldi, af hverju er þá ekki ástæða til að breyta persónuafslættinum og þar með skattleysismörkunum af því að þetta eru bara smáaurar, herra forseti, að sögn hæstv. ráðherra? Af hverju er þá ekki ástæða til að beita sér fyrir því að skattleysismörkin hækki í takt við þessar breytingar? Ég spyr um það, herra forseti.

Við í minni hlutanum höfum óskað eftir því að efh.- og viðskn. hv. taki málið aftur til skoðunar milli 2. og 3. umr. Þar munu aðallega skattleysismörkin koma til umræðu og þar með auðvitað það sem hæstv. fjmrh. hefur sett fram um þessi mál, að þetta séu bara smáaurar. (Fjmrh.: Þetta eru útúrsnúningar hjá hv. þm.) Þetta kostar 990 millj., herra forseti. Ég er bara að lesa upp það sem haft er eftir hæstv. ráðherra að þetta séu bara smáaurar. (Gripið fram í: 200 kr. eru smáaurar.) Hæstv. ráðherra gengur ekki út frá réttri forsendu þegar hann talar um 166 kr. eða 200 kr., hæstv. ráðherra á að miða við skattleysismörkin. Og þær tölur sem við höfum sett fram, þ.e. hvað þurfi að hækka persónuafsláttinn til að skattleysismörkin fylgi launaþróun eru engar 160 kr. eins og hæstv. ráðherra setti fram. Þær tölur sem við höfum sett fram hafa verið staðfestar af fjárlagaskrifstofunni og þær munu koma fram í brtt. sem við væntanlega munum flytja við 3. umr. verði tillaga hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar ekki samþykkt.

Þar kemur fram að persónuafsláttur þurfi að hækka um 217 kr. þegar á næsta ári, þá er ég að tala um skattleysismörkin, 447 kr. og 460 kr., og því fylgir samsvarandi hækkun á persónuafslættinum og það eru miklu hærri tölur en hæstv. ráðherra hefur sett fram þegar hann setur fram skoðun sína á því sem heildarsamtök launafólks hafa sett fram.

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að snúa mér að þeim umsögnum sem hafa komið fram í tengslum við frv. í efh.- og viðskn. og þær hafa komið frá ASÍ og BSRB, Landssambandi eldri borgara og Öryrkjabandalaginu og vil ég byrja á umsögn Landssambands eldri borgara.

Þar segir, með leyfi forseta:

,,Landssambandið hefur fullan skilning á því að sveitarfélögin þurfi á auknum tekjum að halda. Verkefni þeirra hafa að undanförnu farið sífellt vaxandi. En almenn hækkun fasteignamats á þessu ári og fasteignagjalda í framhaldi af því hefur vafalaust bætt þar nokkuð úr skák. Samkvæmt athugun sem framkvæmd hefur verið þykir líklegt að fasteignagjöld þeirra sem eru 67 ára og eldri hafi að meðaltali hækkað um 6.700 kr. á þessu ári vegna hækkunar fasteignamatsins.``

Síðan segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Þá er einnig augljóst að vegna hækkunar fasteignamatsins þá hækkuðu eignarskattar þessa sama aldurshóps fólks sem almennt býr í eigin húsnæði um næstum tvöfalda upphæð hækkunar fasteignagjaldanna. Það vill segja að meginhluti hækkunar almannatryggingagreiðslna á árinu 2000 hefur farið til þess að greiða hækkanir þessa tveggja skatta.``

Með öðrum orðum, hér er vikið að því að þær hækkanir sem lífeyrisþegar hafa fengið á almannatryggingagreiðslum hafi horfið í skattahækkanir þeirra tveggja skatta sem hér eru nefndir og tilgreindir þar, eignarskatt og fasteignagjöld. Þá hefur ekki verið tiltekin sú hækkun sem sjúklingar hafa orðið fyrir sem í verulegum hópi má finna hjá lífeyrisþegum, þ.e. hækkun á lyfjakostnaði sem var um 37% á miðju þessu ári, þannig að ekki verður séð að rauntekjur lífeyrisþega hafi neitt aukist á þessu ári vegna þeirra hækkana sem þessir einstaklingar hafa borið uppi í hækkun á fasteignaskatti og eignarskatti.

Síðan segir:

,,Það er því augljóst að kaupmáttur tekna ellilífeyrisþega í 4,5--5% verðbólgu á árinu hefur farið rýrnandi. Landssamband eldri borgara sér því engin líkindi til þess að ellilífeyrisþegar fáist til að mæla með að styðja sveitarfélögin með því að leggja enn þá meiri álögur á lágtekjufólk í formi hækkaðs útsvars. Stjórn Landssambands eldri borgara leggur því eindregið til að heildarskattlagning tekjuskatts og útsvars verði óbreytt og að hækkun skattleysismarka verði látin fylgja almennri launaþróun í landinu.``

Öryrkjabandalagið, herra forseti, sendi einnig umsögn til efh.- og viðskn. og þar segir, með leyfi forseta:

,,Svo sem efnahags- og viðskiptanefnd er vel kunnugt hefur þróun skattleysismarka verið með þeim hætti á síðasta áratug að jafnvel þeir sem ekkert hafa nema bætur almannatrygginga eru farnir að greiða af þeim beinan skatt sem nemur tugum þúsunda á ári hverju. Þetta gerist þrátt fyrir þá staðreynd að örorkulífeyrir og tekjutrygging hafi dregist verulega aftur úr þróun bæði lágmarkslauna og launavísitölu. Við svo búið má ljóst vera að ÖBÍ getur ekki stutt aðra tillögu en þá að fyrirhuguð útsvarshækkun verði að fullu bætt með samsvarandi lækkun tekjuskatts.``

Það er, herra forseti, í samræmi við þá tillögu sem þingmenn Samfylkingarinnar flytja brtt. undir forustu Guðmundar Árna Stefánssonar.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Auk þeirrar þróunar bóta og skattleysismarka sem hér er minnt á hefur fjölmargt annað orðið til að rýra kjör öryrkja á undangengnum árum. Má þar m.a. nefna aukinn lyfja- og lækniskostnað, stóraukinn húsnæðiskostnað, símkostnað og bifreiðakostnað. Í flestum tilvikum er hér um að ræða kjaraskerðingar sem stjórnvöld hafa tekið meðvitaðar ákvarðanir um --- ákvarðanir sem skýra þá vaxandi neyð sem hjálparstofnanir vitna nú hver af annarri um.

Af þessum sökum er brýnna en nokkru sinni fyrr að létta skattbyrði af öryrkjum, hvort heldur það verður gert með því að hækka skattleysismörkin verulega eða viðurkenna sérstöðu öryrkja með því að undanþiggja örorkulífeyri beinni skatttöku.``

Herra forseti. Þarna eru það ekki bara heildarsamtök launafólks sem mótmæla þessari skattahækkun heldur líka heildarsamtök aldraðra og öryrkja sem mótmæla með mjög afgerandi hætti hvernig ríkisstjórnin stendur að málum.

Herra forseti. Af því að hér var minnst sérstaklega á fasteignagjöldin í umsögn Landssambands eldri borgara, þá er ljóst eins og fram hefur komið að fasteignamatið mun enn hækka verulega og hafa áhrif til hækkunar fasteignagjalda á næsta ári líkt og það gerði á þessu ári, það kemur því til viðbótar þeirri almennu skattahækkun sem fólk á von á. Auðvitað verða afleiðingarnar þær, eins og efh.- og viðskn. fjallaði um í fyrra þegar veruleg hækkun varð á fasteignamatinu eða um 18% og viðmið skattalaga fylgdi ekki, þ.e. þessi 2,5%, að þetta hefur allt áhrif til lækkunar bæði vaxtabóta og barnabóta. Áhrifin á næsta ári munu vera þau að barnabætur munu skerðast eitthvað vegna hækkunar á fasteignamati, þ.e. ef eignir eru hærri en skuldir á árinu, sem ég held að megi gera ráð fyrir þó að skuldirnar hafi hækkað gífurlega og eru menn þar að tala um að frá áramótum til áramóta, þ.e. síðustu áramóta til næstu áramóta, sé hækkunin á skuldum heimilanna um 87 milljarðar kr. Þetta mun sem sagt hafa þau áhrif að fasteignagjöldin hækka, eignarskattar hækka og fjölga mun í hópi þeirra sem greiða eignarskatt. Þetta mun að vísu ekki hafa þau áhrif að lækka barnabætur ef frv. gengur fram sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir, að eignaviðmið hafi ekki áhrif á barnabætur en þetta mun hækka verðlag, neysluvísitalan er sögð hækka um 0,15--0,2% bara við breytingar á fasteignamati og þetta mun auka greiðslubyrði lána og hækka verðlag.

Herra forseti. Hækkun á fasteignagjöldunum er þá til viðbótar almennri hækkun sem ætla má að verði á útsvari á næsta ári og síðan hefur ríkisstjórnin enn bætt um betur í frv. sem hér liggur fyrir þinginu sem er hækkun á nefskatti í Framkvæmdasjóð aldraðra um 500 kr. sem, ef ég man rétt, lífeyrisþegar eru að vísu undanþegnir en mun hækka skattbyrði hjá lágtekjufólki af því að hér er um nefskatt að ræða.

Það er því ástæða til þegar við erum að fjalla um þessar almennu skattahækkanir að halda til haga þeim ýmsu pinklum sem liggur í loftinu að muni að lokum lenda á herðum íbúa landsins og hafa þau áhrif að étinn er upp stór hluti af þeim kjarabótum sem um hefur verið samið í kjarasamningum auk þess lítilræðis sem af borðum ríkisstjórnarinnar hefur fallið til aldraðra og öryrkja. Landssamtök eldri borgara halda því statt og stöðugt fram í umsögn sinni að bara hækkun á eignarskatti og fasteignagjöldum á sl. ári hafi étið upp hækkun á greiðslum lífeyristrygginga á því ári sem senn er á enda.

Herra forseti. BSRB segir í umsögn sinni, með leyfi forseta, orðrétt:

,,BSRB hefur jafnan lagt áherslu á mikilvægi þess að tryggja ríki og sveitarfélögum trausta tekjustofna til að standa straum af mikilvægri samfélagsþjónustu. Jafnframt hafa samtökin bent á mikilvægi þess að skattar eru tæki til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu og nauðsynlegt sé að hyggja að forgangsröðun við skattlagningu svo fyllsta réttlætis sé gætt.``

Síðan fara þeir út í afleiðingarnar af þessu fjárhagslega uppgjöri í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og þeim áformum sem fyrirhuguð eru um skattahækkanir og segja orðrétt, með leyfi forseta:

,,Afleiðingin er hærri tekjuskattur á einstaklinga sem að öllu óbreyttu hefur í för með sér rýrnun á ráðstöfunartekjum þeirra. Sums staðar á landsbyggðinni mun lækkun á fasteignasköttum vega þarna upp á móti en það mun ekki eiga við um Reykjavík eins og áður er vikið að.``

Og síðan segir orðrétt í þessari ályktun, með leyfi forseta:

,,BSRB hefur jafnan lagt á það ríka áherslu að skattar og skattkerfisbreytingar séu skoðaðar heildstætt. Full ástæða er til að mótmæla harðlega forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Hún hefur þrengt tekjustofna vegna arðgreiðslna, heimilað frestun á skattlagningu hagnaðar af hlutafé, innleitt skattahagræðingu vegna valréttarsamninga í hlutafélögum, lækkað aðflutningsgjöld af dýrum bifreiðum og margvíslegum lúxusvarningi svo nokkur dæmi séu nefnd. Því miður hefur lítillar viðleitni orðið vart til að koma til móts við kröfur launafólks um fjölgun skattþrepa og aðra þætti sem mættu vera til tekjujöfnunar. Í ljósi þess mótmælir BSRB fyrirhuguðum skattabreytingum.``

Það er svo sannarlega hægt að taka undir þær áherslur sem hér koma fram frá heildarsamtökum launafólks. Og það er ömurlegt, herra forseti, til þess að vita að á sama tíma og við erum að fjalla um þessa almennu skattahækkun sem fyrirhuguð er á næsta ári og næstu árum á launafólk, þá skuli ríkisstjórnin á sama tíma vera að beita sér fyrir skattalækkun hjá þeim sem eiga mjög mikið, herra forseti, af hlutabréfum og vera að lækka skatthlutfallið á söluhagnaði af hlutabréfum úr 38% niður í 10% yfir tiltekna fjárhæð söluhagnaðar, þ.e. það sem er yfir 3,2 millj. hjá einstaklingi og 6,4 millj. hjá hjónum.

[15:30]

Herra forseti. Samstarfsflokkur fjmrh. hefur gert athugasemdir við lækkun á skatthlutfalli af söluhagnaði á hlutabréfum og er það að vonum. Við erum að tala um fámennan hóp, herra forseti, forríkra einstaklinga sem ríkisstjórnin hefur frestað skattlagningu á söluhagnað hjá. Afleiðingarnar eru að á undanförnum tveimur árum hefur verið frestað skattlagningu á 20 milljörðum kr. sem ríkisskattstjóri metur sem allt að 8,5 milljarða kr. tekjutap ríkis og sveitarfélaga, með þeim fyrirvara þó að ríkisskattstjóri telur að hugsanlega hefðu ekki öll þessi hlutabréf verið leyst út án þessa ákvæðis í skattalögum. Engu að síður hefur verið um verulegt tekjutap hjá ríki og sveitarfélögum að ræða. Þessu ætlar ríkisvaldið og hæstv. fjmrh. að halda áfram hjá lögaðilum auk þess sem lækka á skatthlutfallið úr 38% í 10% á sama tíma og almennir skattar í landinu eru hækkaðir.

Herra forseti. Þegar það frv. kemur til umræðu aftur gefst tækifæri til að ræða það ítarlegar en ég hef gert. Það er auðvitað óhjákvæmilegt að ræða þessi mál í tengslum við hina almennu skattahækkun sem við ræðum hér og hafa mun þau áhrif á kjarasamningana að verulegur hluti launahækkunar hins almenna launamanns hverfur í skattahækkanir fyrir utan það að íþyngja þeim sem síst skyldi, þ.e. öldruðum og öryrkjum sem lifa við sultarkjör.

Herra forseti. Út af fyrir sig mætti segja ýmislegt fleira um þetta mál og þá sem lenda í að greiða hærri skatta, ræða t.d. betur um kjör heimilanna. Kjör heimilanna verða rýrð með aðferðinni sem beitt er til að bæta sveitarfélögunum tapið sem þau hafa orðið fyrir í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Við fjölluðum, herra forseti, í gær um hluta af þessum fjárhagslegu samskiptum ríkis og sveitarfélaga, flutninginn á málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaga. Miðað við þá umræðu má draga í efa að kaflaskil séu í fjárhagslegu uppgjöri milli ríkis og sveitarfélaga og að menn hafi komist að réttlátri eða eðlilegri niðurstöðu þar sem hallað hefur á sveitarfélögin, um 6--7 milljarða á undanförnum árum, ýmist vegna verkefnatilflutnings eða skattalagabreytinga. Frestun á söluhagnaði hefur t.d. út af fyrir sig skert kjör sveitarfélaga um 2 milljarða samkvæmt umsögn ríkisskattstjóra. Jafnframt er ljóst, eins og við ræddum hér í gær, herra forseti, að færa á verulegar byrðar yfir á sveitarfélögin. Af því að menn eru alltaf að segja að það sé á valdi sveitarfélaganna hvort þau hækka útsvar ekki þá verður að árétta að þau eru greinilega, herra forseti, vegna samskipta sinna við ríkið, tilneydd til þessara útsvarshækkana.

Eins og horfir varðandi kostnað við þjónustu við fatlaða sem nú er áformað að flytja til sveitarfélaganna, finnst mér þannig að verki staðið að ástæða sé til að staldra við nú þegar. Reksturinn á sambýlum og húsnæðismál fatlaðra verður, miðað við þá viljayfirlýsingu sem gefin var nú um helgina, með þeim hætti að ríkið mun standa undir leigu í húsnæðismálum fatlaðra en Öryrkjabandalagið mun taka til þess lán og öllum fjármagnskostnaði verður velt yfir í leiguna sem þýðir, herra forseti, náttúrlega mjög aukinn rekstrarkostnað af húsnæðismálum fatlaðra. Mig rak í rogastans þegar ég skoðaði það í gærkvöldi, eftir umræðuna, hverjir eiga að borga brúsann í þessum samskiptum, kostnaðinn í samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða. Svo virðist sem fatlaðir eigi sjálfir að bera verulegan hluta af leigugreiðslum samkvæmt viljayfirlýsingunni frá félmrn. og hússjóði Öryrkjabandalagsins. Það er ástæða til þess að nefna, við umræður um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, að í yfirlýsingunni stendur, með leyfi forseta:

,,Við ákvörðun leigugreiðslna íbúa sambýla hefur verið miðað við að þeir greiði að jafnaði sem samsvarar 4% af stofnkostnaði í leigu og að árleg niðurgreiðsla af húsnæðiskostnaði verði því sem nemur 6% af stofnkostnaði.``

Af stofngjaldi sem velta á yfir í leiguna á ríkið að bera 6% fyrst um sinn og síðan væntanlega sveitarfélögin en fatlaðir, sem hingað til hafa ekki þurft að borga leigu á yfirgnæfandi meiri hluta sambýla, eiga nú að borga leigu. Það á að setja leigugjald á þroskahefta og fatlaða á sambýlum til að standa undir þeim samningi sem gerður var milli Öryrkjabandalagsins og félmrn. um helgina. Það fylgdi auðvitað ekki sögunni þegar það var rætt af hálfu félmrh. að fatlaðir og þroskaheftir eiga að standa undir breytingunni á húsnæðismálum öryrkja og þroskaheftra sem á að leysa á fimm árum með þessari viljayfirlýsingu.

Það sem maður rekur augun í einnig, í þessu sambandi, herra forseti, er að það virðist eiga að stofna hlutafélag um allar fasteignir sem til eru fyrir fatlaða og þroskahefta hér á landi. Það á að breyta rekstrarforminu og stofna sérstakt eignarhaldsfélag, eins og fram kemur innan sviga í viljayfirlýsingunni, um allar eða flestar húseignir sem í dag eru notaðar sem þjónustuíbúðir fatlaðra. Einnig kemur fram að margt mæli með því að rekstrarformið verði hlutafélag en hægt verði að ákveða annað form með lögum.

Þannig stefnir í að rekstrinum á öllum húsnæðismálum fatlaðra í landinu verði breytt, eignum sem fyrir eru og þeim sem til verða í framtíðinni, rekstrarforminu breytt yfir í hlutafélög og íbúarnir sjálfir, þ.e. fatlaðir og þroskaheftir, látnir standa undir 40% af leigugreiðslunum, sennilega með því að taka af bótum þeirra.

Herra forseti. Hér er um algjöra stefnubreytingu að ræða og ástæða til að draga það fram við umræður um samskipti ríkis og sveitarfélaga. Málefni fatlaðra verða væntanlega hluti af þeim samskiptum frá næstu áramótum vegna þess að sá samningur eða viljayfirlýsing sem gerð var um helgina á að taka gildi, ef ég skil málið rétt, frá næstu áramótum. Ég hvet nefndir þingsins sem fjalla um þetta mál, sem væntanlega verða bæði efh.- og viðskn. og félmn., að skoða hvað hér er á ferðinni.

Herra forseti. Ég fer að ljúka máli mínu en ég ætla að enda þar sem ég byrjaði. Ég óskaði nærveru bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. vegna yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga. Ég hef ekki séð hæstv. forsrh. en ég hef séð hæstv. utanrrh. bregða hér fyrir. Ég hefði gjarnan viljað heyra skoðun þeirra og álit á þeirri yfirlýsingu sem þeir undirrituðu 10. mars á þessu ári. Þar á ég bæði við yfirlýsingu um að skattleysismörk fylgi launaþróun, sem þau gera ekki nema Alþingi standi að breytingu á persónuafslættinum og líka um að greiðslur almannatrygginga hækki í takt við laun, sem einnig mun raskast með þeim aðgerðum sem við ræðum hér. Ég vil einnig spyrja um 5. lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á árinu 2000, því gæti hæstv. fjmrh. væntanlega svarað hér síðar í umræðunni. Heildarsamtök launafólks ASÍ hafa kallað eftir því sem þar er fjallað um, þ.e. athugun á tekjuskattskerfinu. En hér stendur í 5. lið:

,,Ríkisstjórnin mun á næstu mánuðum láta fara fram sérstaka athugun á tekjuskatti einstaklinga og staðgreiðslukerfinu. Þar verði m.a. farið yfir kosti þess og galla að fjölga skattþrepum. Haft verður samráð við samtök launafólks og atvinnurekenda um þetta verkefni.``

Ég held að það væri ástæða til að ræða, þó síðar verði í þessari umræðu, hvort þessi vinna er farin af stað. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta er ekki einfalt mál og getur tekið talsverðan tíma en þó þarf að hefja þetta verk. Fróðlegt væri að vita hvar það er á vegi statt þar sem það er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og eftir því hefur verið kallað af hálfu heildarsamtaka launafólks í tengslum við þetta frv.

Herra forseti. Þó að hvorugur þeirra tveggja ráðherra --- hæstv. fjmrh. er að vísu hér --- sem ég kallaði sérstaklega eftir og skrifuðu undir þessa yfirlýsingu sé viðstaddur þá vænti ég þess, herra forseti, af því að eitthvað mun eftir af umræðunni, að hæstv. ráðherrar svari þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til þeirra í umræðunni um þá almennu skattahækkun sem ríkisstjórnin beitir sér nú fyrir í tengslum við uppgjör á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.