Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 15:42:50 (2709)

2000-12-05 15:42:50# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Frv. sem hér er til umræðu, frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, er eins konar tvíburafrv. annars frv. sem nýlega var hér til umfjöllunar og fjallaði um tekjustofna sveitarfélaga.

Þessi frv. ganga í grófum dráttum út á að styrkja fjárhagsgrundvöll sveitarfélaganna, færa tekjustofna sem áður voru hjá ríkinu yfir til sveitarfélaganna og styrkja þannig stöðu þeirra. Þau eru byggð á athugun nefndar sem ríkisstjórnin skipaði á sínum tíma sem leiddi í ljós að skuldir sveitarfélaganna eru orðnar æðimiklar. Í árslok 1999 námu heildarskuldir sveitarfélaganna rúmum 50 milljörðum kr., 51,8 milljörðum kr., og höfðu tvöfaldast á tíu árum.

[15:45]

Um það er ekki deilt að styrkja beri stöðu sveitarfélaganna. Það skyldi gert aðallega með tvennum hætti.

Í fyrsta lagi að auka heimildir sveitarfélaganna til að hækka útsvar og samkvæmt tekjustofnafrv. er þeim heimilað á tveimur árum að hækka útsvarið um 0,99%. Í annan stað er álagningarstofni fasteignaskatts breytt og að sönnu er það ekki til að styrkja sveitarfélögin í sjálfu sér vegna þess að það léttir skattbyrði af einstaklingum utan suðvesturhornsins. Þessi skattstofn hefur verið mjög ósanngjarn, hann hefur tekið mið af fasteignaverði í Reykjavík en verður núna nær veruleikanum þar sem fasteignaverð á landsbyggðinni er yfirleitt miklu lægra en gerist hér. Þetta léttir því sköttum af einstaklingum en rýrir þar með tekjustofna og tekjur sveitarfélaganna. Því er mætt með auknu framlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en í annan stað verður um að ræða tímabundna fjárveitingu í jöfnunarsjóðinn á komandi ári og einnig því næsta upp á 700 millj. kr. hvort ár. Allt er þetta til að styrkja stöðu sveitarfélaganna.

Menn telja flestir sem hafa farið vel ofan í kjölinn á þessum málum að ekki sé nóg að gert því skuldirnar séu miklar og einnig hafi það gerst að ýmis verkefni sem áður voru hjá ríkinu hafi verið færð á herðar sveitarfélaganna án þess að nægilegir tekjustofnar hafi fylgt með. Þá minna menn á að á liðnum árum hafi sveitarfélögin verið svipt ýmsum mikilvægum tekjustofnum eins og aðstöðugjaldinu sem var afnumið snemma á tíunda áratugnum og gaf 5--6 milljarða í aðra hönd. Eins og kunnugt er var það lagt af.

En þótt menn velti vöngum yfir öllum þessum kerfisbreytingum þá beinist gagnrýnin einkum að tekjuskattinum og útsvarinu. Það er rauður þráður í umsögnum sem koma frá sveitarfélögunum að eðlilegt hefði verið við þessar aðstæður að heimildin til útsvarshækkunar annars vegar og tekjuskattslækkunin hins vegar mundu standast á, að ríkið lækkaði tekjuskattinn um sömu hlutfallstölu og heimildinni til útsvarshækkunarinnar nemur. Þetta kemur fram hjá mjög mörgum sveitarfélögum sem veittu Alþingi umsögn um frv. Menn benda á að þetta hafi þegar upp er staðið í för með sér skattahækkun á almenning og menn hafi ekki lagt upp í þessa vegferð með það fyrir augum heldur einvörðungu að færa til tekjustofna.

En reiðin hefur þó sennilega verið mest á höfuðborgarsvæðinu og skýringuna á henni er m.a. að finna í áliti frá meiri hluta efh.- og viðskn. sem er undirritað af hv. þingmönnum Vilhjálmi Egilssyni, Einari K. Guðfinnssyni, Kristni H. Gunnarssyni, Sigríði A. Þórðardóttur, Gunnar Birgissyni og Hjálmari Árnasyni. Þau segja, með leyfi forseta, m.a.:

,,Meiri hlutinn vekur jafnframt athygli á því að á sama tíma og skatthlutfall einstaklinga er lækkað vegna fyrirhugaðrar hækkunar á útsvarsheimild sveitarfélaga eru áform um hækkun barnabóta og lækkun fasteignaskatta.``

En það er staðreynd að á Reykjavíkursvæðinu, á þéttbýlissvæðinu suðvestan lands gerist þetta ekki, alla vega hvað fasteignaskattana snertir. (KHG: Sveitarfélögin geta lækkað prósentuna.) Sveitarfélögin geta lækkað prósentuna. Nú erum við bara að horfa á þær breytingar sem hér er verið að leggja til, annars vegar með tekjustofnafrv. og hins vegar tekjuskattsfrv. Að sönnu er einvörðungu um heimild að ræða til hækkunar á útsvari, það er rétt, en það er mjög líklegt í ljósi fjárhagsstöðu sveitarfélaganna að þau muni nýta þá heimild að fullu. Ég held að hægt sé að ganga nokkurn veginn út frá því að mörg og kannski flest sveitarfélögin muni gera það. (PHB: Hver ætlar að borga það?) Hver ætlar að borga þetta? segir hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur verið óþreytandi við að leggja til á Alþingi margvíslegar ívilnanir fyrir fyrirtæki, stórfyrirtæki og stóreignamenn, fjármagnseigendur, en vill jafnframt setja skattbyrðarnar yfir á einstaklingana, á almenning, á launafólk. Og um það snýst náttúrlega pólitíkin, að takast á um hvernig eigi að deila þeim byrðum niður.

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan nemur heimildin til útsvarshækkunar fyrir sveitarfélögin 0,99% en lagabreytingin til lækkunar tekjuskattinum gengur út á að lækka hann um einvörðungu þriðjunginn af þessu, 0,33%, þannig að þetta er skattahækkun þegar á heildina er litið. Þau rök frá meiri hlutanum um að lækkun á fasteignaskatti vegi þarna upp á móti ganga ekki upp. Þau ganga ekki upp á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu vegna þess að fasteignaskattar þar munu ekki lækka, þarna verður því sannarlega um skattahækkun að ræða. Mér finnst að við eigum ekki að vera með neinar blekkingar í þessu efni, þetta er staðreynd, það er verið að tala um skattahækkun.

Nú skal ég segja það hér einu sinni enn að ég er maður hárra skatta, ég vil afla ríki og sveitarfélögum skatta og vil hafa trausta... (KHG: Maður hárra útgjalda?) Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, ég er maður hárra útgjalda. Ég vil trausta velferðarþjónustu og fyrir hana þarf að greiða.

En síðan kemur að því að ákvarða hvernig byrðunum er deilt, hverjir eigi að greiða. Staðreyndin er sú að meðan ríkisstjórnir Sjálfstfl. hafa setið hefur sköttum kerfisbundið verið létt af stórfyrirtækjum, aflögufærum fyrirtækjum og af stóreignafólki og fjármagnseigendum. Tekjuskattar fyrirtækja voru fyrir tíu árum 50% en eru komnir niður í 30% núna. En á sama tíma hafa tekjuskattar á almenning, einstaklingana hækkað, þeir hafa farið hækkandi. Þetta er staðreynd. Einnig er á það að líta að margvíslegar aðrar álögur á almenning hafa komið til sögunnar, skólagjöld, sjúklingaskattar, aukinn lyfjakostnaður og þar fram eftir götunum. Þótt við viljum trausta tekjustofna fyrir ríki og sveitarfélög þá þurfum við að gæta að því hvernig þeim skattbyrðum er skipt niður.

Staðreyndin er sú að Sjálfstfl. hefur haft forgöngu um að létta skattbyrðum af þeim sem eru raunverulega aflögufærir í landinu en hlaða pinklunum á hina sem eru að kikna undan þeim. Það er ranglátt og hér er haldið áfram á þeirri braut vegna þess að hækkun á tekjuskatti veldur því að skattleysismörkin lækka, þau lækka ef persónuafslátturinn er ekki hækkaður. Og þá erum við komin að öðru meginatriðinu sem er gagnrýnt í þessu tvíburafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hún ætlar ekki að láta persónuafsláttinn hækka þótt hún hækki tekjuskattsprósentuna og það veldur því að skattleysismörkin eru lækkuð. Þessi frv. ganga með öðrum orðum út á að lækka skattleysismörkin og veldur því að á milli tvö og þrjú þúsund manns, á þriðja þúsund manns sem ella hefðu ekki greitt skatta munu greiða skatta vegna þessara breytinga. Þetta er staðreynd.

Komið hefur fram frv. sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson er 1. flm. að en aðrir þingmenn Samfylkingarinnar eru þar einnig og ég hef lýst því áður að ég styð það frv. sem gengur út á að lækka tekjuskattshlutfallið til samræmis við útsvarshækkunina eða fyrirhugaða útsvarshækkun. Ef þessi brtt. við frv. verður ekki samþykkt þá tek ég undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að við í minni hluta efh.- og viðskn. munum flytja tillögu sem gengur út á að hækka persónuafsláttinn. Það tekur nokkuð höggið af þessum breytingum enda þótt niðurstaðan verði eftir sem áður sú að skattbyrðin eykst, hún eykst með hærri skattprósentu. En engu að síður yrði með þessum hætti séð til þess að skattleysismörkin hækkuðu ekki.

Mér finnst, herra forseti, fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna skulda Alþingi og þjóðinni skýringu á því að í miðju góðærinu séu þeir að grípa til ráðstafana sem hafa það í för með sér að skattleysismörkin eru lækkuð. Og þar erum við komin að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í marsmánuði sl., gott ef það var ekki 10. dag marsmánaðar sem ríkisstjórnin, oddvitar stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson undirrituðu yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga sem þá var verið að ganga frá við Flóabandalagið sem svo er nefnt. Í því samkomulagi eða öllu heldur í þeirri yfirlýsingu er sérstaklega vikið að skattleysismörkunum og um það fjallað að þau skuli fylgja launaþróun.

Nú erum við að sönnu ekki að tala um launaþróun, við erum að tala um aðra þætti, við erum að tala um breytingu á skatthlutfallinu þannig að strangt skoðað gætu menn sloppið frá þeirri yfirlýsingu með textarýni af því tagi að segja að launaþróunin sé ekkert að breytast og menn séu þess vegna ekki bundnir því sem hér var undirritað. En markmiðið með þessari yfirlýsingu og með því samkomulagi sem menn töldu sig vera að gera hlýtur eftir sem áður að hafa verið hitt að tryggja að skattleysismörkin færu ekki lækkandi, að þau fylgdu hvort sem væri launaþróun eða öðrum ráðstöfunum, öðrum breytingum sem menn væru að gera, á skattkerfinu þess vegna. Að efni til er niðurstaðan hin sama.

Þetta hefur verið gagnrýnt mjög á liðnum árum af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, af hálfu heildarsamtaka launafólks, að skattleysismörk hafa ekki verið látin fylgja launaþróun og öðrum breytingum sem menn hafa gert á skattkerfunum með þeim afleiðingum að þau hafa dregist aftur úr og í framhaldinu er gert samkomulag um þetta efni. Þetta var eitt meginstefið í skýrslu sem ASÍ og BSRB sendu frá sér á síðasta ári að sýna fram á mikilvægi skattleysismarkanna í kjörum fólks.

Ég mér grein fyrir því að ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um hvernig taka eigi á skattleysismörkunum og sköttunum almennt. Hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hafa verið með tillögur sem ganga út á að afnema skattleysismörkin með öllu og lækka þá um leið skattprósentuna, fara með hana niður undir 20% minnir mig að það hafi verið og afnema skattleysismörkin og telja þetta til góðs. Að sjálfsögðu er þetta til góðs fyrir tekjuhærri hluta samfélagsins vegna þess að hjá tekjuhærri hluta samfélagsins mundu skattar lækka vegna þessa. En fyrir tekjulægsta fólkið, fyrir þá sem eru undir 130--140 þús. kr. á mánuði þá mundu skattar hækka, skattbyrðin aukast. Tekjulægsta fólkið væri með öðrum orðum að niðurgreiða skattalækkanir fyrir tekjuhærri hluta samfélagsins og það væri að mínum dómi rangt.

[16:00]

Ég held að skattleysismörkin séu mjög mikilvæg, ekki aðeins fyrir einstaklinginn og kaupmátt einstaklingsins og þeirra sem eru með minnstar tekjur heldur held ég að þetta hafi líka efnahagslega þýðingu. Mig langar til að vísa aðeins í reynslu annarra þjóða hvað þetta snertir.

Á Norðurlöndum, t.d. í Danmörku, er það staðreynd að ekki er minna, samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið, svikið undan skatti en gerist hér. En margir halda því fram að mjög mikið sé um svarta atvinnustarfsemi, að sérstaklega smá fyrirtæki, óburðug fyrirtæki reyni að skjóta sér undan skatti vegna þess einfaldlega að þau telji sig ekki hafa efni á því að greiða til samfélagsins, þau séu það óburðug. Ég hef heyrt Dani halda því fram að það kerfi sem við búum við, sem í reynd er að vissu leyti stuðningur og niðurgreiðsla á atvinnulífinu, verði til þess að auðvelda fyrirtækjum sem búa við ótraustan fjárhag að ráða fólk til starfa vegna þess að skattleysismörkin taka þarna af þeim höggið, taka af þeim miklar byrðar.

Nú er ég vissulega kominn á svolítið svipaðar lendur og þeir hafa haldið hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og Pétur H. Blöndal að vissu leyti. (Gripið fram í.) Nei, ég ætla ekkert að villast þangað heldur. En ég er að segja það að í reynd gengur röksemdafærsla mín út á það að með eðlilegri skattprósentu stuðlum við að því að víkka skattstofninn þannig að menn svíki síður undan skatti. Það er veigamikill þáttur í rökstuðningi þeirra fyrir skattalækkunum. Ég vildi aðeins skjóta þessari hugsun inn í þessa umræðu.

Ég er að reyna að færa rök fyrir því að við eigum ekki að láta það gerast að skattleysismörkin lækki. Við eigum ekki að láta það gerast. Við eigum að láta þau haldast í takt við launaþróun og í takt við breytingar sem við gerum á skattkerfinu. Ef við látum skattleysismörkin dragast aftur úr þá verða skrefin sem við þurfum að stíga til að rétta hlutina af óbærilega þung þegar fram í sækir eins og dæmin sanna. En það sem við erum að reyna að gera núna er að sjá til þess að ekki sígi aftur á ógæfuhliðina, að við látum þetta haldast í hendur, skattleysismörk, launaþróun og aðrar skattkerfisbreytingar.

Í umsögnum sem Alþingi hafa borist kemur fram mjög hörð gagnrýni á þessar breytingar. Í erindi sem barst frá ASÍ segir m.a, með leyfi forseta:

,,Niðurstaðan er þyngri skattbyrði launafólks á sama tíma og spár gera ráð fyrir að verulega hægi á kaupmáttaraukningunni. Auknar skattálögur sem draga úr ráðstöfunartekjum heimilanna ganga þvert gegn markmiðum kjarasamninganna á almenna vinnumarkaðnum.

En skattbyrði launafólks þyngist ekki aðeins beint vegna skattahækkunarinnar sjálfrar heldur bætist við að skattleysismörk munu að öðru óbreyttu lækka að raungildi. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars sl. vegna kjarasamninganna er kafli sem ber yfirskriftina ,,Skattleysismörk fylgja launaþróun``. Til að skattleysismörkin fylgi almennum lágmarkshækkunum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þyrftu þau að hækka um 3% í ársbyrjun 2003 og aftur um 3% 2002. Skattahækkunin hefur hins vegar þau áhrif að skattleysismörkin hækka aðeins um 2,1% sem er raunlækkun eins og ASÍ hefur ítrekað bent á. Þessi staðreynd sést m.a. á því að vegna fyrirhugaðra breytinga mun skattgreiðendum fjölga um meira en 2.100 eða ríflega 8% strax á næsta ári.``

Þynging skattbyrðinnar sést einnig glöggt á því að svonefnd barnakort áttu að tryggja einstæðu foreldri með eitt barn eða fleiri undir sjö ára aldri og um 100 þús. kr. í mánaðartekjur rúmlega 34.000 kr. í auknar ráðstöfunartekjur árið 2003. Strax á því ári verður ríkisstjórnin búin að taka til baka með skattahækkuninni ríflega fjórðung af þessum kjarabótum sem hún hefur þó haldið svo mjög á lofti.

Þetta er nú annar þátturinn í þessu.

Ég sagði áðan að þetta væri tvíburafrv. sem líta bæri á sem eina heild, tekjustofnafrv. fyrir sveitarfélögin og tekjuskattsfrv. sem hér er til umræðu. En auðvitað er þessi fjölskylda miklu stærri. Ríkisstjórnin er a.m.k. í sínum málflutningi að stækka þessa fjölskyldu. Hún er að reyna að réttlæta þessar auknu skattálögur. Hún er að reyna að réttlæta lækkun skattleysismarkanna og aukna skattheimtu á lágtekjufólk í landinu. Hún er að reyna að réttlæta það með því að barnabæturnar séu auknar, að barnabæturnar séu hækkaðar. Það er bara allt annar handleggur.

Ég furða mig stundum á óskammfeilni talsmanna ríkisstjórnarflokkanna og þá ekki síst Framsfl. sem leyfir sér að halda þessu fram, er að monta sig af því að ótekjutengdar barnabætur verði 33 þús. kr. fyrir hvert barn upp að sjö ára aldri, (KHG: 34 þús.) 34 þús., leiðréttir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, fyrir hvert barn upp að sjö ára aldri.

Árið 1997 var þessi ótekjutengdi hluti um 40 þús. kr. (Gripið fram í.) en ekki bara upp að sjö ára aldri heldur að 16 ára aldri. Og á næstu þremur árum ætlar ríkisstjórnin ekki einu sinni að koma með aukið framlag til stuðnings barnafólki sem nemur skerðingunni á þessu framlagi á síðustu tíu árum. Þetta er staðreynd. Þess vegna er það ótrúleg óskammfeilni að voga sér að setja þetta fram sem einhverjar sérstakar kjarabætur nú. Það er óskammfeilni.

Þetta var úr greinargerð Alþýðusambands Íslands.

Í greinargerðum annarra samtaka kveður við svipaðan tón. Þannig segir m.a. í umsögn BSRB að skoða beri þessi tvö frumvörp heildstætt. Nú vitna ég beint í umsögnina, með leyfi forseta:

,,Þar er gert ráð fyrir lækkun á tekjuskattshlutfalli úr 26,41% í 26,08% eða um 0,33%. Þessi tekjuskattslækkun vegur ekki upp heimild til útsvarshækkunar. Afleiðingin er hærri tekjuskattar á einstaklinga sem að öllu óbreyttu hefur í för með sér rýrnum á ráðstöfunartekjum þeirra. Sums staðar á landsbyggðinni mun lækkun á fasteignasköttum vega þarna upp á móti en það mun ekki eiga við um Reykjavík eins og áður er vikið að. Samkvæmt breytingartillögum við ofangreint frumvarp á þingskjali 243, 196. mál,`` --- hér er vísað í frv. sem ég áður gat um og er flutt af hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og þingmönnum Samfylkingarinnar --- ,,er gert ráð fyrir að tekjuskattslækkunin nemi 0,99% og vegi þannig upp á móti heimild sveitarfélaganna til hækkunar á útsvari. Þetta er eðlilegt sé ætlunin einvörðungu að færa til tekjustofna en ekki hækka skatta.

Mikilvægt er að hyggja að áhrifum þessara skattbreytinga á skattleysismörk. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í mars og lagabreytingum í kjölfarið er gert ráð fyrir að skattleysismörk hækki samkvæmt lágmarks umsömdum launahækkunum sem þá hafði verið gengið frá. Þessi hækkun skattleysismarka er innan þeirrar launaþróunar sem síðan hefur orðið og hlýtur það að vera lágmarkskrafa að nái þær breytingar sem hér er gert ráð fyrir fram að ganga þá verði þær ekki til að skerða skattleysismörk enn frekar. Til þess að skattleysismörk haldist óbreytt miðað við hækkun tekjuskatta um 0,33% 1. janúar 2001 og aftur sama hlutfall ári síðar þyrfti persónuafsláttur að hækka umfram það sem áður hefur verið ákveðið um 217 krónur í byrjun næsta árs, 447 krónur í ársbyrjun 2002 og 457 krónur 2003, sjá meðfylgjandi töflu.``

Hér koma sömu tölur fram og við höfum einnig fengið frá reiknimeisturum fjmrn. nema það skeikar 3 kr. í síðustu upphæðinni. Fjmrn. talar um 460 kr. en í álitsgerð BSRB er talað um 457 kr.

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

,,BSRB hefur jafnan lagt á það ríka áherslu að skattar og skattkerfisbreytingar séu skoðaðar heildstætt. Full ástæða er til að mótmæla harðlega forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Hún hefur þrengt tekjustofna vegna arðgreiðslna, heimilað frestun á skattlagningu hagnaðar af hlutafé, innleitt skattahagræði vegna valréttarsamninga í hlutafélögum, lækkað aðflutningsgjöld af dýrum bifreiðum og margvíslegum lúxusvarningi svo nokkur dæmi séu nefnd. Því miður hefur lítillar viðleitni orðið vart til að koma til móts við kröfur launafólks um fjölgun skattþrepa og aðra þætti sem mættu verða til tekjujöfnunar. Í ljósi þessa mótmælir BSRB fyrirhuguðum skattbreytingum.``

Þetta var m.a. úr álitsgerð BSRB.

Landssamband eldri borgara sendi núna um mánaðamótin frá sér yfirlýsingu þar sem segir m.a. í niðurlaginu, með leyfi forseta:

,,Stjórn Landssambands eldri borgara leggur því eindregið til að heildarskattlagning tekjuskatts og útsvars verði óbreytt og að hækkun skattleysismarka verði látin fylgja almennri launaþróun í landinu. Hvort ríkið og sveitarfélögin skipti með sér heildarskattheimtum á annan hátt en nú er til þess að bæta stöðu sveitarfélaganna, gerum við ekki að þrætuefni.``

Þetta sagði m.a. í álitsgerð Landssambands eldri borgara.

[16:15]

Í áliti Öryrkjabandalagsins kveður við sama tón en í álitsgerð Öryrkjabandalags Íslands eru fyrirhugaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar gagnrýndar og segir að þróun skattleysismarka hafi verið þannig á síðasta áratug að jafnvel þeir sem ekkert hafa nema bætur almannatrygginga séu farnir að greiða af þeim beinan skatt sem nemur tugum þúsunda á ári hverju. Bendir Öryrkjabandalagið á að þetta gerist þrátt fyrir þá staðreynd að örorkulífeyrir og tekjutrygging hafi dregist verulega aftur úr þróun lágmarkslauna og launavísitölu. Leggur Öryrkjabandalagið áherslu á að komi til útsvarshækkunar verði hún að fullu bætt með samsvarandi lækkun á tekjuskatti.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa miklu lengra mál um þetta að sinni. Augljóst er að ætli ríkisstjórnin ekki að koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar og annarra almannasamtaka í landinu, Öryrkjabandalagsins, eldri borgara og stjórnarandstöðunnar um breytingar á þessum frv. mun það kalla á mikinn ófrið. Mér finnst furðulegt ábyrgðarleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara svona fram. Mér finnst það furðulegt ábyrgðarleysi að leyfa sér að koma með breytingar undir því yfirskini einu að verið sé að styrkja fjárhagsgrundvöll sveitarfélaganna sem er vissulega verið að gera, en um leið nota tækifærið til að auka skattbyrðar á almennt launafólk í landinu og lækka skattleysismörkin. Allt snýr þetta að samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur undir lokin þegar hún vék að því sem er að gerast í samskiptum ríkisvaldsins og aðila á borð við Öryrkjabandalagið og hússjóðinn og þær breytingar sem hér virðist eiga að ráðast í á félagslegu húsnæði, á sambýlum, á húsnæði fyrir fatlaða, að fara að gera þetta húsnæði og þessa starfsemi alla að hlutafélögum. Á að fara að færa þetta líka inn á grunn markaðshyggjunnar? Ég er ansi hræddur um að þetta eigi eftir að kalla á miklar umræður.

Eitt er víst að núna verður beðið eftir skýringum hæstv. félmrh. um þetta efni og frá hæstv. fjmrh., hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. verður að sjálfsögðu beðið skýringa á því hvernig þeir ætli að svara þeim verkalýðssamtökum sem þeir lofuðu sl. vor, í marsmánuði að skattleysismörk mundu þróast með tilteknum hætti, en svíkja nú. Hvernig ætla forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að svara samtökum launafólks? Hvernig ætla þeir að svara eldri borgurum? Hvernig ætla þeir að svara Öryrkjabandalaginu? Hvernig ætla þeir að svara heildarsamtökum launafólks, ASÍ og BSRB, sem krefjast þess að þessar skattkerfisbreytingar verði ekki til að lækka skattleysismörkin og ekki til þess að auka skattbyrðar á almennt launafólk á Íslandi og sérstaklega lágtekjufólkið? Hvernig ætla forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að svara þessum aðilum?

Ég skil mætavel hv. formann efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálm Egilsson. Hann hefur löngum barist fyrir skattkerfisbreytingum í þessum anda. Verslunarráðið og samtök atvinnulífsins vilja létta sköttum af fyrirtækjum og fjármagnseigendum og láta launafólk bera byrðarnar. Þetta er í anda þeirra og vissulega er þetta í anda ríkisstjórnarinnar. En hvernig ætla forsvarsmenn stjórnarflokkanna að svara þessum samtökum? Hvernig ætla þeir að skýra yfirlýsinguna sem var gefin sl. marsmánuð í tengslum við kjarasamninga í ljósi þess sem síðar hefur gerst? Hvernig ætla þeir að gera það?

Hér stóðu menn keikir og hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að nú mundu skattleysismörkin þróast í takt við launin. Skilningur allra var sá að þetta mundi haldast svo í reynd að menn mundu ekki koma aftan að fólki með þeim hætti sem nú virðist eiga að gera.