Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 16:27:28 (2713)

2000-12-05 16:27:28# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[16:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held mig við það almenna viðhorf að á þenslutímum sé ekki ráðlegt að lækka skatta og þar tek ég undir sjónarmið sem hafa heyrst úr herbúðum ASÍ.

Við erum hins vegar að tala um að það eigi að láta skattbyrðina standa óbreytta en menn noti ekki þetta tækifæri eða þessar skattkerfisbreytingar sem eru fyrst og fremst hugsaðar til að styrkja fjárhagsstöðu og fjárhagsgrundvöll sveitarfélaganna til að hækka skatta á almennt launafólk. Þá horfi ég líka sérstaklega til annarra skattkerfisbreytinga sem menn eru að grípa til þessa dagana og ganga allar út á að létta skattbyrðina á hátekjufólki og fjármagnseigendum. Það er staðreynd.

Hitt vil ég leiðrétta hv. þm. Kristin H. Gunnarsson að ég hef aldrei sagt það og aldrei gefið það í skyn að verið væri að lækka persónuafsláttinn. Ég sagði að verið væri að lækka skattleysismörkin vegna þess að ef skattprósentan er hækkuð án þess að persónuafslátturinn sé hækkaður að sama skapi þá hafi það það í för með sér að skattleysismörkin lækki. Ég er að tala gegn því að það gerist. Út á það gengur það.

Ég hef ekki verið með neinar blekkingar í þessu efni og tel mig hafa talað skýrt hvað þetta snertir þannig að þetta er misskilningur hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni.