Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 17:00:39 (2716)

2000-12-05 17:00:39# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[17:00]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Afskaplega var þetta dapurleg málsvörn og aumkunarverð. Hafi hv. þm. ekki skilið og ekki heyrt það og ekki lesið það, þá telur Samfylkingin ekki rétt að hækka skatta á almennt launafólk við þær aðstæður sem nú eru.

En ég gagnálykta þá og hlýt að gera það en vil samt spyrja til að hafa það algjörlega á hreinu því að afstaða okkar er alveg skýr í málinu: Er það afstaða hv. þm. að núna sé mjög mikilvægt að hækka skatta á almennt launafólk? Telur hann það mikilvægt hagstjórnartæki og að einmitt núna sé rétti tímapunkturinn til að gera það? Þetta er að sumu leyti nýtt því að hér voru menn að reyna að þumbast við í síðustu viku og voru að reyna að telja sjálfum sér trú um að þegar allt kæmi til alls væri þetta ekki svo mikil skattahækkun, kannski notuðu ekki sveitarfélögin heimildir sínar o.s.frv.

Ég met hreinskilni hv. þm. þegar hann gengst við því enda getur hann náttúrlega ekkert annað, talnaglöggur maðurinn. Er hann þeirrar skoðunar að það sé réttlætanlegt, það sé pólitískt rétt, það sé efnahagslega rétt að hækka skatta á almennt launafólk? Ég er það ekki. Ekki. Það er skýrt.

Sá ágæti maður, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, má hafa skoðanir sínar fyrir mér. Ég hef hins vegar yfirlýsingu eða minnisblað frá hagdeild Alþýðusambands Íslands eða varaforseta Alþýðusambandsins og hagfræðingi þess og ég veit ekki betur en að miðstjórnin hafi tekið undir í kjölfarið þar sem hún varar við því að þegar það dragi úr kaupmáttaraukningunni og við séum í niðursveiflu í hagsveiflu sé rétti tíminn að hækka skatta. Ég er andvígur því en þarna skilur á milli feigs og ófeigs enda er um skýra og afdráttarlausa pólitík að ræða. Þeir vilja hækka skatta á almennt launafólk, ég vil ekki gera það.