Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 17:02:47 (2717)

2000-12-05 17:02:47# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég rifja upp að fyrir tíu árum voru skattar hækkaðir á almenning utan höfuðborgarsvæðisins með því að sett voru sérstök lög um fasteignaskatt sem lögðu skattinn ekki á verðmæti eignanna heldur á uppreiknað verðmæti eins og það væri ef eignin væri í Reykjavík. Þessari sérstöku skattlagningu á fólk utan höfuðborgarsvæðisins fyrir tíu árum stóð Alþfl. fyrir. Löggjöfin var sett undir forustu hv. núverandi þingmanns, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem þá var félmrh. og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson tók við síðar sem félmrh. og breytti engu og beitti sér ekki fyrir því einu sinni að breytingar væru gerðar að þessu leyti.

Þessir hv. þingmenn hafa síðustu tíu ár verið þeirrar skoðunar að rétt væri að skattleggja sérstaklega fólk á landsbyggðinni um 1.125 millj. kr. á ári. Það er þetta sem við erum að beita okkur fyrir, að lækka skatta á þennan hóp manna þannig að skattlagningin verði til samræmis við það sem hún gerist á höfuðborgarsvæðinu.

Af því að hv. þm. var að vitna í kjördæmi mitt og gera lítið úr áhrifum þessarar breytingar þá mun samkvæmt áliti tekjustofnanefndar, sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson átti sæti í, þessi skattahækkun hans og hans gamla flokks á fasteignaeigendur á Vestfjörðum skila um 120 millj. kr. á ári. En hækkunin á útsvari, ef öll sveitarfélögin nýttu hana til fulls á Vestfjörðum, er þó ekki nema 75 milljónir þannig að hækkunin sem hv. þm. hefur staðið fyrir og staðið að sleitulaust í tíu ár er miklu meiri en hann hefur talið núna.