Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 17:11:39 (2721)

2000-12-05 17:11:39# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að ég hafi sagt að málið yrði tekið upp milli 2. og 3. umr. tel ég ekki að í því hafi falist viðurkenning á því að ríkisstjórnin væri að ganga gegn þessari yfirlýsingu. Það sem ég tel að skipti líka máli í þessu sambandi eru allar þær skattalagabreytingar sem verið er að gera núna og hafa verið að gerast síðan þessi yfirlýsing var gefin og hvernig þær koma út fyrir launafólk og skattgreiðendur almennt.

Ég vek athygli á því að fasteignagjöldin eru að lækka, barnabæturnar eru að hækka og síðan hafa ýmsar aðrar skattalagabreytingar komið fólki til góða. Ég vil einungis að farið sé yfir þetta og við förum yfir þetta mál sérstaklega milli umræðna aftur í nefndinni. Síðan mundi ég reikna með því, ef staðan verður þannig eftir áramót þegar verður fjallað um kjarasamningana á vettvangi aðila vinnumarkaðarins að forsendur hafi staðist eða ekki staðist, að þá verði teknar upp viðræður við ríkisstjórnina og aðila vinnumarkaðarins um þessi mál. Þá er hægt að gera þau upp líka ef eitthvað stendur út af í þessum málum eftir þinglokin fyrir jólin.