Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 17:54:08 (2727)

2000-12-05 17:54:08# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[17:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er skemmtileg taktík hjá hv. þm. að hann þakkar okkur innleggið þegar við erum að skamma hann. Út af fyrir sig er það kannski óvitlaust. Þó það nú væri að eitthvað skilaði sér þegar slík staða hefur verið uppi eins og undanfarin ár, góðærið sem Framsfl. bjó til m.a. fyrir fyrirtækin og þar með bjó Framsfl. til störf. Auðvitað hafa orðið til gífurlega mörg ný fyrirtæki. Nýir möguleikar opnuðust með EES-samningnum sem varð til reyndar undir lok þarsíðustu ríkisstjórnar sem annars bjó til kreppuna eins og hv. þm. man. Þannig er boðskapur Framsfl. Þó það nú væri að þetta skilaði sér að einhverju leyti í skatttekjum. En það sem ég hef verið að benda á og hef stutt með tölum úr svörum, úr fyrirspurnum sem hafa verið lagðar fram, dregur það fram svo ekki vefst fyrir nokkrum manni hverjir það eru í þessu landi sem greiða stærst hlutfall af tekjum sínum til ríkisins og hverjir það eru sem greiða lítið eða ekkert en njóta alls hins sama. Það hef ég verið að draga fram. Vinir hverra eru þessir stjórnarflokkar? Ekki vinir litla mannsins. E.t.v. vinir ríkissjóðs og vinir breiðu bakanna sem þeir eru alltaf að verja. Þó það sé þannig að eitthvað af barnafólki sjái örlítinn aur núna þegar á að fara að skila hluta af barnabótunum til baka. En hvað ætli verði tekið til baka af því í lækkuðum vaxtabótum, í lækkuðum bótum af ýmsu tagi og í öllum þeim öðrum aðgerðum sem ég hef rakið og ætla ekki að fara í í stuttu andsvari?