Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 17:56:12 (2728)

2000-12-05 17:56:12# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, KLM
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[17:56]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Mér finnst einhvern veginn að hv. þm. séu hættir að fara fram á, a.m.k. við þessir minni spámenn sem erum ekki í viðkomandi nefndum, að ráðherrar sitji í sætum sínum þegar mál eru rædd, eins og þau skattahækkunarmál sem eru á dagskrá. Hins vegar fagna ég því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., er viðstaddur. Ég mundi gjarnan vilja að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem er jafnframt varaformaður hv. efh.- og viðskn., væri einnig viðstaddur vegna þess að ég hef spurningar fram að færa til hans. Hann er auk þess formaður þingflokks framsóknarmanna og formaður Byggðastofnunar og vill oft viðra sig töluvert upp við landsbyggðina og flokkur hans telur sig vera einhvern, eða var það a.m.k. áður, landsbyggðarvænan flokk. Þar sem ég hafði hugsað mér að ræða um fasteignaskatta á landsbyggðinni og annað slíkt sem snertir mjög afkomu fólks á landsbyggðinni hygg ég að það snerti mjög þann hv. þm. sem ég nefndi. Ég vildi gjarnan að hann væri beðinn að heiðra mig með nærveru sinni í þingsal þegar við förum yfir þessi mál.

(Forseti (GÁS): Forseti hefur þegar gert ráðstafanir í þá veru.)

Takk fyrir.

Herra forseti. Margt hefur komið fram í umræðu um þær skattahækkanir sem er verið að ræða um og þingmenn Samfylkingarinnar hafa mjög rætt um og gert að umræðuefni. Ég ætla ekki að fara frekar ofan í þau mál en ég hef hugsað mér að ræða um það sem menn tala um að komi algjörlega á móti skattahækkunum hæstv. ríkisstjórnar, þ.e. lækkun fasteignaskatta á landsbyggðinni. Það hefur komið fram að skattahækkanir hæstv. ríkisstjórnar muni hafa í för með sér 10 þús. kr. hækkun á mann eða 50 þús. kr. hækkun á fimm manna fjölskyldu í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu, hún muni stórhækka skatta þar, en svo hefur líka verið sagt að skattahækkunin muni ekki virka á íbúa landsbyggðarinanr vegna þess að lækkun fasteignaskatta vegi þar á móti. Því vil ég mótmæla hér og nú, herra forseti. Ég tel að menn hafi farið ansi frjálslega með þær tölur sem verið er að ræða þegar menn eru að tala um að fasteignaskattar á landsbyggðinni lækki um 1.100 millj. á næsta ári vegna þess að breyting er gerð á álagningarstofni fasteignaskatts sem ríkisstjórnarflokkarnir boðuðu m.a. fyrir kosningar að yrði eitt af fyrstu málum þeirra að breyta, þ.e. hinum óréttláta gjaldstofni til fasteignaskatts. Aldrei var talað um að það ætti að bæta upp tekjutap sveitarfélaganna með skattahækkunum.

[18:00]

Talað er um að fasteignaskattur á landsbyggðinni muni lækka um 1.100 millj. Á bls. 37 í hinni merku skýrslu tekjustofnanefndar, greinargerð nefndar með tillögum og viðaukum, kemur fram að heildarfasteignaskattar á landsbyggðinni, að Reykjaneskjördæmi meðtöldu, muni lækka um 1.125 millj. Síðan er því skipt niður þannig að fasteignaskattslækkun íbúa á landsbyggðinni vegna íbúðarhúsnæðis er ekki nema 513 millj. kr. en 611 millj. kr. lækkun á fasteignasköttum af atvinnuhúsnæði. Það kann út fyrir sig að vera það bitastæðasta í þessu og ágætt mál að fasteignaskattar á atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni skuli lækka um 611 millj. En ég bið menn að ræða þetta ekki nema greina þarna á milli.

Þegar hv. stjórnarliðar guma sig af því að verið sé að lækka fasteignaskatta um 1.125 millj. þá er þetta hlutfallið. Þessu verður mætt með skattahækkun á einstaklinga á landsbyggðinni líka. Þar mun skattahækkunin koma fram þannig að lækkun fasteignaskatta á íbúa landsbyggðarinnar er minni en sem nemur hækkun á skattinum á sama tíma.

Herra forseti. Ég ætla að fara yfir nokkur dæmi um þetta sem ég hef tekið af handahófi. Þess ber að gæta að ekki eru öll sveitarfélög úti á landi komin langt í fjárhagsáætlunum sínum. Sveitarstjórar eru því ekki allir tilbúnir að fara yfir þær tölur sem liggja á borðinu. En nokkrar tölur höfum við fengið og ég vil leyfa mér að fara í smáhringferð um landsbyggðina, aðeins út á land, m.a. í kjördæmi okkar hv. þm. og formanns efh.- og viðskn., Norðurlandskjördæmi vestra. Ég mun taka nokkur dæmi og skoða það hvaða áhrif aðgerðirnar hafa á einstaklinga. Síðan vil ég, herra forseti, spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson og Kristin H. Gunnarsson, varaformann efh.- og viðskn., formann Byggðastofnunar og formann þingflokks Framsfl., hvernig þeir ætli að útlista kjarabæturnar fyrir íbúum landsbyggðarinnar miðað við útreikningana sem ég hef undir höndum.

Eigum við að byrja á Siglufirði þar sem fasteignaskattar af íbúðarhúsnæði lækka um 8,2 millj.? Það er sannarlega mikil kjarabót fyrir íbúana. En útsvarshækkun upp á 0,66% hækkar skatta sömu íbúa um 13 millj. Þeir munu þannig borga tæpum 5 millj. meira í skatt en áður. Hver er hinn skattalegi ávinningur fyrir þessa íbúa?

Eigum við að fara næst á Skagaströnd, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson? Fasteignaskattar á einstaklinga á þeim ágæta stað munu lækka um 3,5 millj. Þetta eru lágar upphæðir enda lítil sveitarfélög. En útsvarshækkunin verður í kringum 6,5 millj.

Eigum við að taka Skagafjörð þar sem lækkun fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði mun í kringum 24 millj. en boðuð skattahækkun ríkisstjórnarinnar sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, 4. þm. Norðurl. v., mælti fyrir áðan þýðir útsvarshækkun upp á 40 millj. hjá sömu íbúum?

Eigum við að keyra til baka, fara yfir Vatnsskarðið og yfir til Blönduóss? (VE: Eigum við ekki að fara Þverárfjallið?) Ja, Þverárfjallið er nú ekki tilbúið en við getum prófað. Það er góð tíð. Förum Þverárfjallið til Blönduóss af því við komum við á Skagaströnd áðan. Fasteignaskattar Blönduósinga lækka um 5,8 millj. En útsvarshækkunin, skattahækkun ríkisstjórnarinnar er um 8 millj. kr. á sömu íbúa.

Eigum við að fara til Húsavíkur? Fasteignaskattar á íbúa Húsavíkur munu lækka um 10 millj. kr. En skattahækkun ríkisstjórnarinnar mun leiða til þess að sömu íbúar greiða 20 millj. kr. meira í útsvar.

Herra forseti. Hvernig í ósköpunum geta stjórnarliðar komið hver á fætur öðrum og dásamað þessar aðgerðir fyrir íbúa landsbyggðarinnar? Landsbyggðarfólk hefði þurft eitthvað annað frá hæstv. ríkisstjórn en frekari skattahækkanir sem hér eru boðaðar. Það er ekki leiðin til að sporna gegn áframhaldandi byggðaröskun, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður Byggðastofnunar, að ganga fram með þeirri skattahækkun sem hér er mælt fyrir. Þetta er hrein skattahækkun á íbúa landsbyggðarinnar og ég bið menn að hætta að tala um 1.100 millj. kr. lækkun fasteignaskatta á íbúa landsbyggðarinnar. Ég bið menn að hætta því.

Það kemur skýrt fram á bls. 37 í skýrslunni að það er verið að lækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði í landsbyggðarkjördæmunum, þar meðtöldu Reykjanesi. Að vísu virkar það ekki á nema lítinn hluta þess kjördæmis, Sandgerði og Reykjanesbæ, sem betur fer ekki hér næst og í kringum Reykjavík. Lækkun fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði nemur um 513 millj. og lækkun fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði nemur um 611 millj. Ég tek skýrt fram að það er sennilega það besta sem út úr þessum tillögum kemur, lækkun skatta á atvinnuhúsnæði á landsbyggðinni sem þessu nemur. En ég bið menn að skilja þarna á milli, vera sanngjarna og skipta því niður. Annars vegar er um íbúðarhúsnæði að ræða, hins vegar atvinnuhúsnæði.

Eigendur íbúðarhúsnæðis eiga aftur á móti einir að bæta það tekjutap sem út úr þessu kemur í gegnum skattahækkun ríkisstjórnar, stórhækkun á sköttum á íbúa landsbyggðarinnar. (KHG: Við þurfum að afnema krataskattinn.) Á bls. 37 í skýrslunni er ákaflega merkilega athugasemd, í þeirri ágætu bók sem hér er dreift og er enn eitt lóð á vogarskálina ásamt tugum kílóa af skýrslum um landsbyggðina og hvað þurfi að gera þar til að bæta skilyrðin. Ég veit ekki hvað þau kíló eru orðin mörg, enda hefur það komið fram að landsbyggðina vantar flest annað en skýrslur, ný loforð frá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarherrunum eða nýjar úttektir. Það vantar aðgerðir til að sporna við þeirri byggðaröskun sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum. Í skýrslunni segir um þessa fasteignaskattsbreytingu, með leyfi forseta:

,,Breytingin hefur í för með sér verulega lækkaðar álögur fyrir einstaklinga og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins ...`` --- takið eftir --- ,,... verulega lækkaðar álögur fyrir einstaklinga ...``

Hverjar eru þær lækkanir? Ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, og spyrja hv. þm. sem eru í forsvari fyrir efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálm Egilsson og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, varaformann nefndarinnar: Hvernig í ósköpunum er hægt að leggja þetta út sem miklar kjarabætur fyrir íbúa landsbyggðarinnar? Telja menn það vænlegast til árangurs í byggðamálum, til að leysa þann þjóðarvanda sem áframhaldandi byggðaröskun er, að hækka skatta á íbúa landsbyggðarinnar? Ég segi nei. Þetta eru kolvitlausar ráðstafanir enda hygg ég að menn hafi lítið hugsað út í þessi áhrif. Mér finnst það á öllu enda kemur það heim og saman við það að menn tala um 1.100 millj. lækkun fasteignaskatta á landsbyggðinni og nota þá upphæð til að réttlæta aukið útsvar á landsbyggðarfólk. Það er einfaldlega rangt vegna þess að skattar hjá einstaklingum á landsbyggðinni lækka ekki nema um 513 millj.

Gaman væri að nefna, herra forseti, dæmi um hvað þessi skattalækkun getur þýtt fyrir einstaklinga í Norðurl. v., því ágæta kjördæmi. Það eru 58 millj. tæpar. Á Vestfjörðum lækkar skatturinn um 53 millj. Ég ætla, herra forseti, að taka dæmi um upphæðirnar sem hér um ræðir. Upphæðin sem íbúar Vestfjarða og Norðurlands vestra fá í lækkun fasteignaskatta, ef svo má að orði komast og innan gæslappa að sjálfsögðu, er örlítið hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir að innréttingar --- ég vek athygli á því að það eru aðeins innréttingar --- kostuðu í húsnæðið hinum megin við Austurvöll sem ætlaðar eru undir þingflokk Sjálfstfl. að stærstum hluta.

Þó er ekki allt búið. Þingflokki Sjálfstfl. dugðu ekki 100 millj. kr. húsnæði. Síðustu tölur úr Reykjavík um þetta tiltekna verkefni gefa til kynna að verkið sé komið 85 millj. fram úr áætlun. Hvaða kjördæmi ætli við þyrftum þá að bæta við til að jafna það við lækkun fasteignaskattana? Jú, við verðum að taka allt Vesturlandið og þó dugir það ekki til. Það dugir ekki til til að bera þetta saman. Alþingi Íslendinga eyðir 185 millj. kr. í innréttingar --- ekki kaup á húsnæði, húsnæðið er leigt --- fyrir skrifstofur þingflokks Sjálfstfl. Ég vek athygli á því að það er svipuð tala og áætluð lækkun fasteignagjalda á íbúðareigendur í Vesturlandskjördæmi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, sem dugir þó ekki til.

Það væri gaman að skoða skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á þessi þrjú kjördæmi í þessu samhengi. Ætli þær væru ekki töluvert hærri, herra forseti, en uppbyggingarkostnaður við skrifstofuhúsnæði Sjálfstfl. sem hann á að flytja í, vonandi sem allra fyrst.

Þetta er aðeins um þetta atriði. Stundum veit maður ekki hvort maður á að brosa að þessum tillögum eða gráta. Að segja á bls. 37 í fylgigagninu með þessu frv. að breytingarnar muni hafa í för með sér verulega lækkaðar álögur fyrir einstaklinga á landsbyggðinni er ótrúlegt. Að láta þetta koma fram er ótrúlegt.

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., er ansi duglegur að koma í ræðustól Alþingis og fylgja eftir frv. frá hæstv. ríkisstjórn sem hann styður með ráði og dug, fylgja eftir tillögum um aukna skatta á íbúa landsbyggðarinnar. Mér er lífsins ómögulegt að skilja hvernig landsbyggðarþingmaður getur komið jafnoft hér upp og fylgt eftir frv. sem eingöngu eru til þess að íþyngja íbúum landsbyggðarinnar og hækka skatta á þeim.

Ég ætla, herra forseti, að vitna í umræður frá því í vor, áður en við fórum í sumarfrí, um breytingar á þungaskatti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson fylgdi úr hlaði nál. meiri hluta efh.- og viðskn. Hann boðaði þar fagnaðarerindið, að þungaskattsbreytingin ætti ekki að hafa neinn tekjuauka í för með sér, þetta ætti að vera það sama. Næst á dagskrá þessa fundar, herra forseti, er tillaga um að lækka þungaskatt um 10%. Ég sagði við umræðuna um málið í vor að þær breytingar sem hv. þm., framsögumaður efh.- og viðskn., var að mæla fyrir yrðu til að stórhækka þungaskatt hjá þeim sem keyra lengst. Þarna var hv. þm. að boða, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að sjálfsögðu, enn einn landsbyggðarskattinn, hærri skatta á íbúa landsbyggðarinnar. Hvernig í ósköpunum geta hv. þm. af landsbyggðinni látið sig hafa það að koma hér upp sem handbendi hæstv. ríkisstjórnar og boðað þessar skattahækkanir? Mér er alveg lífsins ómögulegt að skilja þetta.

[18:15]

Eigum við að fara yfir, herra forseti, hvað þungaskatturinn hefur haft í för með sér fyrir íbúa landsbyggðarinnar? Eigum við að taka fyrir fyrst vöruflytjendur á millilöngum flutningaleiðum eins og t.d. í Húnavatnssýslu, á Hornafjörð og Snæfellsnes, vöruflytjendur sem aka 70--90 þús. km á ári að meðaltali? Frá 1998 til síðustu breytinga á þungaskatti sem gerðar voru í vor hefur þungaskattur á þessa aðila hækkað um rúm 20%, um rúm 20% hjá þeim sem keyra svokallaða vagnlest, flutningabíl með vagn aftan í sér. Ef við tökum venjulega vöruflutningabifreið þá er þetta svipað.

Eigum við að taka vöruflytjendur á löngum flutningaleiðum sem fara t.d. á Eyjafjarðarsvæðið og aka 90--120 þús. km á ári að meðaltali? Þar hefur hækkunin verið, hjá þeim sem keyra 100 þús. km, um 33% frá 1998.

Eigum við að taka vöruflytjendur, herra forseti, sem keyra lengst, fara á Austfirði eða á Vestfirði, í kjördæmi hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, eða Norðurland eystra, þá sem aka 120--150 þús. km á ári að meðaltali? Þar er hækkun þungaskatts upp á 40--45%.

Herra forseti. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum er hægt að halda svo áfram? Hafa menn fundið hin breiðu bök? Eru það íbúar landsbyggðarinnar sem mega þola frá 20 upp í 40% hækkun þungaskatts sem fer beinustu leið út í vöruverð og fer beinustu leið út í aðflutninga til atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni? Ég tala nú ekki um ef verið er að flytja hráefni út á landsbyggðina til að vinna úr og flytja það svo aftur suður til sölu. Þá sjá menn hvaða áhrif þessi þungaskattshækkun hefur haft. Er þetta það sem brýnast er að senda sem skilaboð frá hv. Alþingi í dag til íbúa landsbyggðarinnar, þ.e. mismunurinn á fasteignagjöldum og útsvari, stórhækkun útsvara? Loforðið um lækkun fasteignaskatta er ekkert, svikið frá a til ö. Er það þungaskatturinn? Eða er það einn landsbyggðarskatturinn til sem samþykktur var rétt fyrir þinglausnir í vor, hinn svokallaði flugmiðaskattur sem flugfarþegar þurfa að greiða í hækkuðu farmiðaverði með 50--60 millj. kr. á ári og áætlað var þegar frv. var lagt fram og kynnt fyrir hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu að ætti að skila 200 millj. kr. á ári?

Það var orðað svo, herra forseti, að notendur þjónustunnar, þeir sem nota flugleiðsögu, ættu að greiða þetta alfarið. Flugfélögin, hvert á fætur öðru, hafa nú sýnt fram á að þetta þurfti að fara beint út í verðlagið, enda kom það fram í öllum tillögum frá þessum aðilum og í nefndaráliti. Það var svoleiðis. Það fer beint þangað.

Herra forseti. Ég hef hér gert að umtalsefni ímyndaða lækkun sem hv. stjórnarþingmenn hæla sér af, en þeir telja sig vera að boða hér eitthvert fagnaðarerindi rétt fyrir jólin til íbúa landsbyggðarinnar. Ég tel mig hafa sýnt fram á að þetta eru öfugmæli. Það er verið að stórhækka skatta á einstaklinga úti á landi alveg eins og hér á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignaskattslækkunin á íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni vegur ekki upp þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin afhenti sveitarfélögunum að framkvæma. Það er alveg á hreinu. Enda er dálítið kyndugt að lesa í nefndaráliti meiri hluta efh.- og viðskn. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn telur eðlilegt að skatthlutfall einstaklinga verði lækkað til að koma til móts við þá fyrirætlan að hækka heimild sveitarfélaga til útsvarsálagningar.``

Ég segi eins og er að ég skil ekki þetta álit miðað við þær tillögur sem hér eru frammi og miðað við að menn ætli ekki að fara að þeim tillögum sem þingflokkur Samfylkingar með hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson í broddi fylkingar hefur flutt um að tekjuskatturinn verði lækkaður um 0,33% og þannig verði þetta jafnað út.

Í meirihlutaálitinu segir einnig, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn vekur jafnframt athygli á því að á sama tíma og skatthlutfall einstaklinga er lækkað vegna fyrirhugaðrar hækkunar á útsvarsheimild sveitarfélaga eru áform um hækkun barnabóta og lækkun fasteignaskatta.``

Þarna eru enn einu sinni á ferð öfugmæli og hreint og beint verið að segja fólki ósatt, enda á það eftir að koma á daginn, herra forseti, þegar sveitarfélögin vítt og breitt um landið verða búin að ganga frá sínum fjárhagsáætlunum, leggja á og skoða þetta dæmi allt saman frá a til ö, að þetta mun koma út fyrir íbúa landsbyggðarinnar eins og ég hef hér gert að umtalsefni, þ.e. skattahækkun. Og loforð um lækkun á fasteignagjöldum sem hv. stjórnarþingmenn gáfu með því að ríða um héruð og boða það fagnaðarerindi rétt fyrir kosningar eru öll saman svikin með því að það á að gefa aðeins eftir en seilast ofan í hinn vasann og ná í miklu meira.

Herra forseti. Ég vil rétt í lokin einnig vekja athygli á því hvers konar breytingar eru að eiga sér stað því að við þá miklu hækkun sem varð á fasteignamati á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári neyddust mörg sveitarfélög á landsbyggðinni til að lækka álagningarprósentu sína til þess að freista þess að koma til móts við íbúa þeirra byggðarlaga vegna þeirrar óréttlátu hækkunar. Þá yrði sú tala, lækkunartalan sem notuð var fyrir þetta ár, notuð til að endurgreiða sveitarfélögunum mismuninn sem verður eftir að við erum búin að breyta lögunum. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að mörg sveitarfélög lækkuðu þetta töluvert mikið og þannig er komið í bakið á þeim, enda var það svo að Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Eyþing, gat sérstaklega um þetta í umsögn til hv. félmn. og vakti athygli á þessu. En ekkert var gert með þetta heldur skal þetta reiknað út frá þeirri álagningarprósentu sem var síðast.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þá umræðu miklu meira sem hér hefur verið um þetta, en rétt aðeins í lokin vil ég segja að það er ekki aðeins að þetta hafi íþyngjandi áhrif á íbúa landsbyggðarinnar. Hér hefur líka komið fram í ræðu einhverra stjórnarþingmanna varðandi umræddar skattahækkanir að hin breiðu bök eru fundin. Það sem hér er verið að gera mun einnig hækka skatta á aldraða og öryrkja. Af þeim litlu bótum sem aldraðir og öryrkjar hafa í dag eru teknar 6--7 þús. kr. í skatt. Miðað við það sem hér er verið að boða mun þetta aukast enn. Ríkisstjórnin hefur fengið og fundið fleiri breið bök til þess að níðast á með skattheimtu sinni og aldraðir og öryrkjar eru í þeim hópi.

Herra forseti. Ég vil að lokum ítreka það enn einu sinni og segja: Það eru hrein öfugmæli, og ég bið hv. stjórnarþingmenn að hætta að tala um það, að lækkun fasteignaskatts fyrir íbúa á landsbyggðinni sé einhver rosaleg kjarabót vegna þess að útsvarshækkunin mun gera miklu meira en að vega upp þá lækkun sem boðuð er í fasteignasköttum á landsbyggðinni.