Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 18:52:47 (2736)

2000-12-05 18:52:47# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[18:52]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Íslenska skattkerfið er í eilífri samkeppni við skattkerfi annarra þjóða. Á undanförnum árum hefur verið ákveðin viðleitni af hálfu stjórnvalda til þess að taka þátt í þessari skattalegu samkeppni og við höfum séð ýmsar breytingar á skattalögum koma fram sem gera íslenskt atvinnulíf samkeppnishæfara.

Allar þær breytingar hafa haft jákvæð áhrif. Þær hafa allar orðið til þess að þjóðarframleiðslan hefur vaxið. Hún hefur vaxið um 25% á fimm árum. Ríkið hefur fengið stórauknar tekjur og miklu betri staða er til þess að halda úti því velferðarþjóðfélagi sem við viljum búa í. En þessi skattasamkeppni er ekki búin og henni lýkur ekki í eitt skipti fyrir öll. Hún heldur áfram og þar á meðal er spurningin um alþjóðaviðskiptafélögin og stöðu þeirra. Við tökum eftir því núna að þegar við sjáum vöxt í hinum nýju atvinnugreinum eru fyrirtækin miklu betur í stakk búin til að flytja til útlanda. Það er miklu þægilegra en áður að stofna eignarhaldsfélag erlendis þar sem haldið er utan um hugverkaréttindi og slíka hluti. Ef við lokum augunum og höldum í einhverjar gamlar lummur og tölum eins og ekkert hafi breyst þá er það ekki til gæfu. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur séð ,,Agora`` sýninguna sem var haldin í Laugardalshöll í haust. Ef hann sá hana ekki ætti hv. þm. að sjá hana næst þegar hún verður haldin og velta því fyrir sér hvað yrði um þau fyrirtæki ef þær hugmyndir sem menn hafa verið að viðra í skattalögum og vega að atvinnulífnu næðu fram að ganga.