Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 18:54:52 (2737)

2000-12-05 18:54:52# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[18:54]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. hefur eingöngu áhyggjur af sköttum fyrirtækja. Hann talar um að þau geti farið úr landi, þau geti flutt til hagnað og hagrætt með ýmsum hætti og við verðum að passa upp á að fyrirtækin fari ekki úr landi.

Ég hef hins vegar meiri áhyggjur af fólki og hinum dreifðu byggðum þessa lands. Ég sé að fólk flytur nú orðið frá Íslandi og hvert flytur það? Það flytur til annarra landa, m.a. til Noregs, bæði út af atvinnu og sköttum.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., virðist ekki hafa nokkrar áhyggjur af því. Ég hef ekki heyrt hann í allan dag nefna að sérstaklega þyrfti að horfa til skattgreiðslna fólks. Í allan heila dag hefur verið talað um fyrirtæki. Það er forgangurinn sem hv. þm. hefur og út af fyrir sig ætla ég ekkert að skamma hann fyrir það. Hann má hafa þann forgang en hann er alveg öndverður við það sem ég vil. Ég vil setja fólk í öndvegi og frelsi einstaklinga til þess að geta lifað í landinu.

Því miður er löggjöfin þannig í landinu að menn eiga m.a. ekki innkomu í sjávarútveginn. Hann hefur verið færður í eignabönd örfárra og þeir örfáu greiða ekki einu sinni skatt. Þannig er það, hv. þm.