Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 20:34:01 (2738)

2000-12-05 20:34:01# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, KHG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[20:34]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Áðan fannst mér ástæða til, eins og umræðan var fyrr í dag, að koma á framfæri ábendingu um atriði sem hefur ekki verið minnst á í dag, sérstaklega í ljósi þess að fulltrúar stjórnarandstöðunnar flytja mál sitt nær eingöngu með því sjónarmiði að gagnrýna að lækkun á tekjuskatti sé ekki jafnmikil og möguleg hækkun á útsvari sem geti þá leitt af sér skattahækkun þegar á heildina er litið upp á 1.250 millj. kr. á næsta ári miðað við þær áætlanir sem fyrir liggja.

Ég vek athygli á því að töluverð breyting hefur orðið í tekjum af fasteignaskatti á undanförnum tveimur árum þar sem fasteignamat hefur farið verulega upp eins og hefur gerst á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólksfjölgun hefur skapað aukna eftirspurn og hækkandi verð. Ég leit aðeins á tölur í þessu sambandi í dag og langar að koma þeim á framfæri þannig að fyrir lægi að breytingar hafi orðið að þessu leyti án þess að við þær hafi verið gerðar neinar athugasemdir af hálfu þeirra sem tala nú gegn breytingum á útsvarsákvörðunum.

Á síðustu tveimur árum hefur fasteignamat eigna hækkað um liðlega þriðjung. Fyrst um 18%, ef ég man tölurnar rétt, í fyrra og síðan um 14% núna þannig að samtals er þetta um 35% hækkun.

Herra forseti. Það er svo mikill hávaði úr hliðarherbergi að ... (RG: Forseti. Ég geri miklar athugasemdir við þetta. Ég er að tala við formann efh.- og viðskn. Maðurinn er að tala í máli og efh.- og viðskn. er ekki hér.)

(Forseti (GuðjG): Hv. 3. þm. Vestf. hefur orðið.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér kost á að halda áfram ræðu minni þó að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sé á sérfundi í þingsalnum.

Á síðustu tveimur árum hefur fasteignamatið hækkað um þriðjung eða liðlega það. Það leiðir af sér tekjuauka fyrir sveitarfélögin, sérstaklega þegar hækkun er svona mikil og langt umfram verðlagsbreytingar, raunverulegan tekjuauka fyrir sveitarfélögin nema þau lækki álagningarstuðulinn til mótvægis við hækkunina á matinu umfram verðlagsbreytingar. Miðað við þær athuganir sem ég hef gert í dag á álagningarstuðlum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári, því síðasta og þar síðasta, þá virðist vera nánast sama breyting, sama álagningarprósenta notuð í fasteignaskatti öll þrjú árin nema hvað það er örlítil hækkun álagningarprósentu í Mosfellsbæ. Í Garðabæ er einnig nokkur hækkun en það er aðeins lækkun í Reykjavík á íbúðarhúsnæði. Síðan er í sumum sveitarfélögum eins og Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ hækkun á álagningarstuðli á atvinnuhúsnæði. Ég met það því svo að í heildina hafi álagningarstuðlarnir ekki lækkað á þessu svæði og þannig dregið úr skatttekjuaukanum sem verður vegna hækkunar á fasteignamatinu.

Þegar þær tölur eru skoðaðar sem sveitarfélögin hafa haft í tekjur af þessum tekjustofni kemur í ljós að hækkun tekna sveitarfélaganna af fasteignaskatti er 1.200--1.300 millj. á einu ári sem er nokkurn veginn sama fjárhæð og áætlað er að skili öllum sveitarfélögum landsins í tekjur af því að hækka útsvarið á næsta ári umfram það sem tekjuskattur lækkar.

Þetta vildi ég minna á, herra forseti, vegna þess að ég held að menn hafi almennt ekki tekið eftir því að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa sótt sér auknar tekjur í gegnum fasteignaskattinn á síðustu tveimur árum sem nemur milli 1.200 og 1.300 á hverju ári. Þegar maður veltir því fyrir sér að þingmenn stjórnarandstöðunnar og varaforseti Alþýðusambands Íslands eru að mótmæla fyrirhuguðum eða mögulegum hækkunum á útsvari upp á 1.250 millj. en láta algerlega hjá líða að nefna hækkunina sem verður vegna fasteignaskatta hlýtur maður að spyrja: Hver er skýringin á því?

(Forseti (GuðjG): Forseti verður að biðja hv. þm. að gera hlé á máli sínu. Hv. formaður efh.- og viðskn. óskar eftir að nefndin fái örlítið meira svigrúm og við munum taka fyrir annað mál á meðan.)

Það er alveg sjálfsagt. Ég var reyndar búinn með ræðu mína þannig að ég get bara lokið henni ef forseta er þægð í því en ég enda hana með því að óska eftir skýringum hv. þm. stjórnarandstöðunnar á því af hverju þeir minnast ekki á þessa skattahækkun. Hvers vegna er ekki aðfinnsluefni að hækka fasteignaskatta sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eins og í Reykjavík en það er mikið aðfinnsluefni ef útsvarstekjur hækka um sömu fjárhæð?