Lokafjárlög 1998

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 20:43:25 (2741)

2000-12-05 20:43:25# 126. lþ. 40.11 fundur 260. mál: #A lokafjárlög 1998# frv., KHG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[20:43]

Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil einmitt vekja athygli á því að á þessum síðustu dögum fyrir jól eru oft tíðir fundir í þingnefndum og standa jafnt yfir þó fundir séu í þingsal eins og í fjárln.

Ég vil líka upplýsa að nefndarmönnum í efh.- og viðskn. var fullkunnugt að ég var að fara af fundi til að fara í ræðustól og enginn hreyfði andmælum við því. Það er heimilt að halda áfram fundi í þingsal þó að fundur í þingnefnd sé yfirstandandi ef ekki eru hreyfð andmæli við því. Ég heyri hins vegar að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem var ekki á þessum fundi í efh.- og viðskn., er að gera athugasemd við það og forseti metur þær óskir eins og vera ber.

Mér finnst hálfleiðinlegur bragur á umvöndunum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem er stöðugt í ræðustól að hreykja sér yfir eigin ágæti og gera lítið úr stjórnarandstæðingunum og stöðugt að tíunda að hinir og þessir þingmenn séu fjarverandi. Þetta er afskaplega leiður siður sem hv. þm. á ekki að temja sér og er honum til minnkunar. Það hefði verið hægur vandi fyrir stjórnarliða oft og tíðum, m.a. í dag að fara upp og reyna að gera lítið úr hv. stjórnarandstæðingum sem voru ákaflega fáir undir umræðum. En við höfum ekki tamið okkur þau vinnubrögð og ætlum ekki að gera það. Ég vil fara fram á að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir leggi sig fram um að stuðla að eðlilegu þinghaldi í stað þess að vera með ónot af þessu tagi.