Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:20:24 (2750)

2000-12-05 22:20:24# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:20]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Vegna erfiðrar skuldastöðu sveitarfélaganna eru þau flest nauðbeygð til að hækka útsvar. Í og með er þetta vegna aukinna verkefna sem ríkisvaldið hefur með lagabreytingum fært yfir á herðar þeirra. Þess vegna er ábyrgðin stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar. Það er hún sem er að hækka skattana án þess að hækka persónuafsláttinn um leið. Þetta veldur því að ríkisstjórnin er ábyrg fyrir því að skattleysismörkin lækka.

Það kostar að sönnu talsverða peninga að hækka persónuafsláttinn. Hverjar 100 kr. kosta um 200 millj. kr. En ég held að það sé dýrara þegar til lengri tíma er litið að láta persónuafsláttinn ekki fylgja þessari þróun. Þess vegna mundi hinn fyrirhyggjusami stjórnandi grípa til þeirra ráðstafana.

En að sjálfsögðu viljum við fyrst láta á það reyna að ríkisstjórnin samþykki það að tekjuskattsprósentan verði færð niður til samræmis við heimildir sveitarfélaganna til að hækka útsvar.