Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:24:52 (2754)

2000-12-05 22:24:52# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:24]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hvaða tölur var um að tefla? Hvað segir niðurstaða tekjustofnanefndar, allrar í einu lagi, fulltrúa sveitarfélaga sem og ríkisins, að sveitarfélögin telji sig þurfa? 4--7 milljarða kr. Það er meira en 1% í útsvari. Það er meira en 0,99%.

Svona ódýrir útúrsnúningar um jöfn skipti, hversu há sem þau væru eða lág, það væri allt sem óskað er eftir, um það er ekki að ræða. Ég er einfaldlega að segja að tekjuþörf sveitarfélaga var til staðar, um hana var ekki deilt. Hins vegar var spurt um það og við tökumst á um það hér hvort þriðji aðilinn eða við skulum segja skattgreiðendur eigi að borga þessa útgjaldaþörf sveitarfélaga, sem enginn deilir um, eða hvort ríkissjóður sem er aflögufær af ýmsum ástæðum ætli að slaka til á móti.

Það er eftirtektarvert, herra forseti, að skyndilega er það algjört smámál þegar kemur að því að skattgreiðendur borgi brúsann í gegnum útsvarið. En það er stórmál ef ríkiskassinn ætlar að leka því út í lækkuðum tekjuskatti. Það er mjög eftirtektarvert.