Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:30:32 (2759)

2000-12-05 22:30:32# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að fullyrðing hv. þm., um að ríkisstjórnin væri að ganga á bak orða sinna í því samkomulagi sem ég (Gripið fram í.) las úr, eigi ekki við rök að styðjast, jafnvel þó að hún komi úr blaðinu sem (Gripið fram í.) þingmaðurinn las upp úr.

Hér stendur að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að persónuafsláttur og skattleysismörk breytist í takt við umsamdar almennar launahækkanir á samningstímabilinu. Þetta höfum við gert og ekki ástæða til annars en að því verði fylgt áfram. Við gerðum, eins og ég sagði, breytingar í vinnslu þessa máls í þinginu á sínum tíma til að standa enn betur við þetta. Við gerðum það reyndar enn betur vegna þess að við hækkuðum persónuafsláttinn um 2,5% aukalega 1. apríl eins og menn muna. Afslátturinn hefur því hækkað meira en gert var ráð fyrir í samningum þegar frá þeim var gengið.