Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:31:36 (2760)

2000-12-05 22:31:36# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:31]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér virtist hæstv. fjmrh. vera mér sammála um að endurskoða þurfi ríkjandi fyrirkomulag á skattlagningu ríkis og sveitarfélaga. Ég hefði viljað sjá það gert í nefndinni sem nýlega lauk störfum eftir tveggja ára starf.

Mér finnst stundum eins og umræðan snúist um valdabaráttuna í Reykjavík, um örvæntingarfullar tilraunir minni hlutans þar til þess að klekkja á meiri hlutanum í Reykjavík. Málið snýst hins vegar um hag miklu fleiri sveitarfélaga og íbúa þeirra. Það er ekki bara um smáaura að ræða vegna þess að safnast þegar saman kemur. Við búum við hækkandi verðbólgu, háa vexti, hækkandi skuldir heimilanna, hækkandi vöruverð, hækkandi skólagjöld, hækkandi lyfjakostnað sem valdið hefur kjararýrnun hjá mjög mörgum fjölskyldum á undanförnum mánuðum.