Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:35:06 (2763)

2000-12-05 22:35:06# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:35]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög og mun því verða stuttorður. Hins vegar er gjörsamlega fráleitt að ljúka þessari umræðu með framgöngu hæstv. fjmrh. í málinu. Hún var satt að segja ákaflega sérkennileg. Hann talaði af yfirvegun og rólyndi, ekki vantaði það. Í öðru orðinu talaði hann eins og maður úti í bæ sem hefur ekkert um það að segja hvernig þessi mál ganga fram. Hann ræddi það svona holt og bolt að honum væri að meinalausu að sveitarfélögin fengju stórhækkaðar útsvarsheimildir og lyfta mætti þakinu á útsvarinu svo og svo mikið.

Ég get svo sem akademískt og í almennri umræðu um þau mál verið honum hjartanlega sammála. Ég hef raunar sagt það um langt árabil. Ég vænti þess þá að hann verði orðum sínum trúr í þessum efnum fyrr en síðar og að sveitarfélögin fái almennt auknar heimildir þegar menn sjá fyrir endann á því að brýnasti og bráðasti vandi þeirra sé leystur með úrlausnunum í tillögum tekjustofnanefndar sveitarfélaga. Það er þó alltént þannig, eins og fram kom við umræðu um tekjustofna sveitarfélaga, að flest okkar eru þeirrar skoðunar að í rétta átt miði í þeim efnum.

Deilan snýst hins vegar ekki um það. Hún snýst að vísu að vissu leyti um aðferðina, þ.e. hvort þetta hafi endilega verið rétta leiðin og hitt hver eigi að borga þessa fjárvöntun sveitarfélaga. Sá er kjarni málsins og um það ræðum við hér.

Hæstv. ráðherra heldur áfram í sama tón og segir í öðru orðinu að hér sé um algjört smámál að ræða, algjört smotterí, aðeins nokkrar krónur til eða frá á hvern einstakling. Samt er hann ekki sannfærðari um lítilvægi málsins en svo að hann bætir því ævinlega við að þetta sé í raun ekki sitt mál heldur þurfi að ræða það við sveitarfélög landsins, þeirra sé mátturinn og dýrðin.

Öðruvísi mér áður brá því að þessi málflutningur hæstv. ráðherra er fjarri því að vera í samræmi við málflutning félaga hans í þessum sal, stjórnarliða almennt. Þeir hafa farið mikinn í umræðunni og sagt að hér sé um eðlilegan þátt í hagstjórn að ræða, að ekkert sé óeðlilegt að hækka skatta miðað við aðstæðurnar í samfélaginu. Þarna rekst því hvað á annars horn. Það kemur ekki á óvart þar sem hæstv. ríkisstjórn er ekki vön að þurfa að standa í vörn fyrir að hækka verulega skatta á almennt launafólk meðan ríkissjóður skilar á sama tíma afgangi upp á tugi milljarða króna. Það er mjög nýstárleg og óvenjuleg staða. Vissulega eiga þau öðru að venjast, hv. flokksbræður og flokkssystur hæstv. ráðherra, en að standa frammi fyrir því að menn geti sýnt fram á að markmiðið í þeim frv. sem hér hefur verið rætt um sé að hækka skatta á almennt launafólk. Það er erfitt hlutskipti og ég skil vel að þeim líði ekki mjög vel yfir því. Það eiga þeir þó sameiginlegt, hæstv. ráðherra og hv. þingmenn sem hafa reynt að verja þennan gjörning, að þeim líður öllum mjög illa.

Herra forseti. Í þessu samhengi er líka mjög merkilegt að nú er allt í einu gripið til þeirrar nauðvarnar að kannski verði þessi skattahækkun ekki svo mikil þegar allt kemur til alls, kannski verði það þannig á árinu 2002 að sveitarfélögin nýti sér ekki þá heimild sem gefst upp á 0,33%. Skýringin er: Jú, af því að það eru að koma kosningar.

Fyrir hálfum mánuði, áður en 1. desember rann upp, lokafrestur sveitarstjórna landsins til að leggja á útsvar, héldu stjórnarliðar nákvæmlega þessu sama fram, að það yrði sennilega ekkert úr þessari meintu skattahækkun af því að sveitarfélögin mundu líklegast ekki nýta sér heimildina. Við stjórnarandstæðingar sögðum hins vegar að allt benti til þess og vísuðum til umsagna sveitarfélaganna, vísuðum til niðurstöðu tekjustofnanefndarinnar, sem enginn deilir um, um tekjuþörf sveitarfélaganna og fjárhagsvanda þeirra. Ákaflega er það létt í vasa að enn á ný eigi að spila þessa gömlu, brotnu og slitnu plötu um að kannski verði ekkert af þessari viðbótarskattahækkun á árinu 2002 vegna þess að þá fari að nálgast kosningar og þau muni því ekki leggja í að hækka skatta á íbúa sína, leggi ekki í að rétta við erfiða fjárhagsstöðu með því að sækja auknar tekjur samkvæmt útsvarsheimildum. Þetta er afskaplega ótrúverðugt allt saman, herra forseti. Það sést í gegnum þetta langar leiðir.

Það er hárrétt, og um það getum við hæstv. ráðherra verið sammála, að hér er um ákaflega einfalt frv. að ræða og skýra valkosti. Efnisgreinin er ekki nema ein í frv. En hún er heldur ekki nema ein í brtt. okkar í Samfylkingunni. En þar skilur á milli. Á að bæta fjárhagsvanda sveitarfélaga með því að hækka heildarálögur hins opinbera á fólkið í landinu eða á að gera það með skuldaskilum milli þessara tveggja opinberu aðila, ríkisins og sveitarfélaga? Það eru valkostirnir.

Við erum einhuga um hvorn kostinn skuli velja. Við teljum efnahagslega rangt í núverandi niðursveiflu, vonandi skammvinnri, að leggja skatta á almennt launafólk. Við teljum hins vegar rétt að sveitarfélög fái sitt og ríkissjóður, þar sem hann er aflögufær, mæti sveitarfélögunum með lækkun tekjuskatts. Þetta eru hinir skýru og kláru valkostir. Um þetta á pólitík að snúast. Þess vegna munum við fylgjast með því þegar Sjálfstfl. og Framsfl. munu á morgun við afgreiðslu málsins eftir 2. umr. taka ákvörðun um að leggja á, þegar allt kemur til alls og öll kurl verða komin til grafar á árinu 2002, um 2,5 milljarða kr. skatt, smápeninga, á almennt launafólk í landinu. Það er kjarni málsins. Það var hárrétt hjá hæstv. ráðherra að 2,5 milljarðar kr. í lækkun tekjuskatts eru miklir peningar fyrir ríkissjóð en 2,5 milljarðar kr. sem skattgreiðendur eiga að borga til sveitarfélaga vítt og breitt um landið eru jafnmiklir peningar fyrir það fólk. Þannig er það einfaldlega. Flóknari er þessi jafna ekki.