Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:45:02 (2765)

2000-12-05 22:45:02# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:45]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ástæða til þess að þakka hv. þm. þessa þátttöku í umræðunni. Hann hélt hér merka ræðu fyrir tómum þingsal áðan sem enginn gat hlýtt á og er nú með styttri útgáfu af henni hér. En ekki var þetta mjög merkilegt innlegg. Ég vil biðja hv. þm. fyrst af öllu að reyna að glugga aðeins í það rit sem hefur verið grundvallarrit í allri þessari umræðu, nefnilega skýrslu tekjustofnanefndar þar sem farið er yfir tekjuþróun og útgjaldaþróun sveitarfélaga. Raunar hafa sveitarstjórnarmenn, sem hann ætti nú marga að þekkja af gamalli veru sem slíkur hér á árum áður, bent á að samsvarandi þróun hefur verið hjá ríkisvaldinu varðandi tekjuþróun og útgjaldaþróun en allar tölur hins vegar miklum mun hærri í hlutfalli. Með öðrum orðum hafa tekjurnar aukist hraðar og útgjöldin sömuleiðis. Í þennan samjöfnuð mundi ég því ekki fara mjög hratt í sporum hv. þm., að sveitarfélögin hafi verið að taka bakdyramegin inn umtalsverðar tekjur sem þau hafi ekki þörf fyrir.

Staðreyndin er sú, og það ætti hv. þm. að vita, að Þjóðhagsstofnun spáði því áður en kom til þeirra breytinga sem hér um ræðir að sveitarfélögin yrðu rekin með 3 milljarða kr. halla yfir landið heilt og breitt á næsta ári. Hann ætti einnig að vita að sveitarfélögin hafa á síðustu tíu árum aukið skuldsetningu sína um 51 milljarð, eða eru komin í 51 milljarð, hafa aukið hana í nettó 21 milljarð og það er jafnt í smærri sveitarfélögum sem stærri. Því er nú verr og miður. Það stafar m.a. af því sem hv. þm. ætti líka að vera mjög kunnugt, þ.e. þessari byggðafjandsamlegu stefnu sem ríkisstjórnin hefur byggt á og hefur kostað sveitarfélög sem eru að tapa fólki umtalsverða peninga og ekki síður sveitarfélög sem hafa þurft að taka við stórum hópi fólks sem er að flýja landsbyggðina.

Allt leiðir þetta til sömu niðurstöðu, þ.e. að sveitarfélögin hafa einfaldlega verið rekin með myljandi halla og á því þarf að taka.