Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:47:12 (2766)

2000-12-05 22:47:12# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:47]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er ákaflega einfalt. Sveitarfélög á landsbyggðinni hafa víðast hvar mátt búa við minnkandi tekjur vegna þess að gjaldendum hefur fækkað. Hins vegar hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu búið við betri skilyrði, sem betur fer skulum við segja. Þau hafa sótt sér viðbótarskatttekjur á síðustu tveimur árum upp á u.þ.b. 1.200--1.300 millj. á ári vegna þess að fasteignamat eignanna sem þau leggja á hefur hækkað svo gríðarlega mikið á síðustu tveimur árum.

Það er bara kjarni málsins að þessi sveitarfélög hafa fengið tekjur, nýjar skatttekjur, umfram verðlagsþróun. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur ekki gert neina athugasemd við það þó að svo hafi verið og engin krafa hefur komið fram um það af hans hálfu að ríkissjóður bæti gjaldendum í Reykjavík það upp með því að lækka tekjuskattinn.