Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:48:23 (2767)

2000-12-05 22:48:23# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:48]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég segi nú enn og aftur: Alltaf verður það nú merkilegra innleggið hjá hv. þm. hér á lokaspretti þessarar umræðu. Hafi tilgangur ríkisstjórnarinnar verið sá í upphafi að rétta hlut sveitarfélaga og gera hér ákveðin skuldaskil, þó að menn geti deilt um aðferðafræðina í þeim efnum eins og ég gat um hér áðan, er ljóst að menn hafa mismunandi áherslur í þeim efnum.

Ég held að ég verði eftir þessa umræðu, þó heldur seint sé, að gefa hv. þm. þessa bók, skýrslu tekjustofnanefndar, þannig að hann kíki nú á hana og lesi hana þar sem farið er yfir þessa tekju- og útgjaldaþróun sveitarfélaga lið fyrir lið.

Hann sá sérstaka ástæðu til þess að staldra við höfuðborgarsvæðið þar sem hrein skattahækkun á þá 160 þúsund íbúa sem hér búa verður í kringum 1,6 milljarðar kr. þegar útsvarshækkunin og tekjuskattslækkunin er að fullu komin til framkvæmda á árinu 2002. Það þarf ekki flókna útreikninga til þess að átta sig á því hver álagningaraukningin er á hvert mannsbarn í þeim efnum og hvern íbúa, þ.e. um 10 þús. krónur.

Það sem merkilegt er hins vegar í þessum efnum og gerir það að verkum að maður spyr sig um tilgang þess að hv. þm. kemur hér með þetta sérkennilega innlegg af þessum toga, er að hann er hér sennilega að tala sérstaklega til flokkssystkina sinna í Hafnarfirði. Framsóknarmenn fara þar með völd ásamt Sjálfstfl. Hann er kannski sérstaklega að tala til flokkssystkina sinna í Kópavogi sem þar fara með völdin ásamt íhaldi. Hann er með öðrum orðum greinilega að halda því fram að hinar nýlegu útsvarshækkanir þar á bæjum séu algjörlega ónauðsynlegar. Ég bið hann því bara að snúa sér beint þangað en láta okkur hér í friði með þessar óbeinu árásir á sveitarstjórnarmenn úr eigin flokki eins og þær birtast okkur við lokasprett þessarar umræðu.