Fjáröflun til vegagerðar

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:58:59 (2769)

2000-12-05 22:58:59# 126. lþ. 40.10 fundur 283. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (þungaskattur) frv. 165/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:58]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir tæpu ári síðan þegar hér var samþykkt frv. til laga um breyting á lögum um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, komu fram athugasemdir frá ýmsum hagsmunaaðilum í þá veru að þessi breyting mundi hafa í för með sér verulegan kostnaðarauka fyrir alla þá sem stunduðu vöruflutninga á lengri leiðum. Það hefur síðan komið í ljós eftir að Alþingi samþykkti það frv. sem þá var til umræðu að þeir sem gerðu þessar athugasemdir höfðu rétt fyrir sér. Menn fullyrða að um sé að ræða 30--40% hækkun á vöruverði og flutningskostnaði á lengri leiðum sem bitnaði þá fyrst og fremst á afskekktustu byggðum landsins sem þurftu mest á landflutningunum að halda.

[23:00]

Efh.- og viðskn. var mjög lengi að fjalla um frv. m.a. vegna þess að þessar athugasemdir komu fram. Á hinn bóginn var það álit Samkeppnisstofnunar sem hæstv. ráðherra nefndi áðan og fyrir lá að ef ekki yrði gerð breyting yrði það kært einu sinni enn til Samkeppnisstofnunar af þeim aðilum sem vildu ná breytingunni fram. Það voru fyrst og fremst flutningafyrirtæki á landsbyggðinni sem lýstu áhyggjum sínum um aukinn kostnað. Þá var ekki verið að tala um eldsneytiskostnað heldur fyrst og fremst um að frv. sjálft og lögin sem tóku síðan gildi mundu hafa í för með sér verulega hækkun á flutningskostnaði og það kom svo reyndar í ljós.

Hæstv. ráðherra nefndi samstarfshópinn og að með góðu samráði væri hægt að ná skynsamlegri niðurstöðu sem hefði síðan birst í þessu frv. Ég tek undir að það frv. sem hér liggur frammi er vissulega spor í rétta átt. En ég hlýt þó að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist grípa til einhverra svipaðra ráðstafana hjá öðrum þeim sem nota dísilolíu á bifreiðar sem hafa borið sömu hækkun, það er sama krónutala á hverjum lítra sem notað er í dísilbifreiðum sem greiða fast gjald.

Nú skilst mér að ríkissjóður hafi tekið inn í auknar tekjur eða reikni með því að taka inn í auknar tekjur yfir 300 milljónir á næsta ári af þeim bifreiðum þar sem greitt er fast árgjald. Talað er um að það sé fyrst og fremst vegna þess að fjölgun dísilbíla hafi verið mjög mikil. Aðrar þjóðir hafa hvatt til notkunar dísilbifreiða og m.a. vegna þess að þar væri um umhverfisvænni orkugjafa að ræða en bensín. Í þessu frv. er m.a. lagt til í öðru ákvæði að veita sérstakar undanþágur vegna tilrauna á notkun á nýjum orkugjöfum sem er líka mjög jákvætt mál þannig að báðir þættir þessa frv. eru mjög góðir. Engu að síður er það nú þannig að þeir sem keyra dísilbifreiðar búa við þá gífurlegu hækkun á eldsneyti sem hefur orðið á undanförnu ári, yfir 30%, og reyndar á þungaskattinum líka. Áætlað að ríkið taki inn verulega auknar tekjur af þessum aðilum og þær dekki í raun og veru þann afslátt sem er verið að veita þeim sem keyra vöruflutningabifreiðarnar og keyra eftir kílómetragjaldi dísilbílanna.

Nú er það þannig að þær tölur sem eru í frv. og hins vegar það sem kemur fram frá fjmrn. um breytingar á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir 3. umr. fjárlaga passa ekki alveg saman vegna þess að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. er talað um að áætlað er að lækkun kílómetragjalds um 10% leiði til 300 millj. kr. árlegrar lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Hins vegar er í undirbúningi að 3. umr. fjárlaga talað um að nákvæmlega þessi upphæð, þ.e. 10% lækkun á mælagjaldi, lækki tekjur ríkissjóðs um 205 millj. kr. Þarna er náttúrlega um töluverðan mismun að ræða og ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra í hverju þessi mismunur liggur og síðan hvort gripið verði til einhverra hliðstæðra ráðstafana til þess að lækka kostnað hjá öðrum þeim sem nota dísilbifreiðar eða hvort ríkisstjórnin hyggst hvetja til þess á einhvern hátt að menn breyti í auknum mæli frá bensínbifreiðum yfir í dísilbíla sem er umhverfisvænni orkugjafi og betra fyrir okkur í allri umræðu um Kyoto og hvernig draga megi úr mengun miðað við þann búnað sem er nú í dísilbílum.

Síðan hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra --- því þrátt fyrir þennan úrskurð sem kom á sínum tíma frá Samkeppnisstofnun er það ljóst að Samkeppnisstofnun skoðaði ekki þann þátt sem lýtur að rekstri slíkra fyrirtækja úti á landsbyggðinni --- hvort fyrirtæki rekin á Neskaupstað eða í Reykjavík búi við sambærilegar samkeppnisaðstæður. Í skýrslunni frá Samkeppnisstofnun kom fram að það hefði ekki verið gert. Hyggst hæstv. ráðherra skoða það eitthvað meira hvort hægt er að taka upp fleiri gjaldflokka en eru í dag miðað við þá keyrslu og þær stærðir á bifreiðum fyrirtækja sem eru úti á landi, hefur það verið eitthvað rætt eða er þetta endanleg niðurstaða þessa samráðshóps? Hefur komið fram í umræðunni hvaða áhrif flutningskostnaðurinn hafði á vöruverð á landsbyggðinni og hvort eitthvert eftirlit verði með því að hann lækki samfara þeim breytingum sem hér er verið að leggja til?

Að öðru leyti tek ég undir það með hæstv. ráðherra að ég tel að þetta frv. sé mjög gott og samstarf leiði til skynsamlegrar niðurstöðu. Ég er sannfærð um það af því ég býst við að hæstv. ráðherra hafi rætt um þetta samráð fyrst og fremst út af þeim orðum sem féllu áðan um samráð við verkalýðshreyfinguna eða samtök launafólks. Ég er sannfærð um að samráð við samtök launafólks í landinu, þær breytingar sem eru fyrirhugaðar á tekjuskatti og eignarskatti, hefði líka leitt til skynsamlegri niðurstöðu en var í því frv.