Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:40:38 (2781)

2000-12-05 23:40:38# 126. lþ. 40.14 fundur 285. mál: #A staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar# (Þingvallaprestakall) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:40]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Úr þessum ræðustól hefur hæstv. forsrh. sagt eftirfarandi orð, með leyfi forseta:

,,Kirkjuþing hefur ályktað að halda beri út prestakalli tengdu Þingvöllum og þar sitji prestur. Það er út af fyrir sig málefni kirkjunnar að ákveða það þrátt fyrir að prestakallið sé orðið afar lítið ...``

Einnig hefur komið fram í fréttum sem ég hafði útskrift af á þeim tíma sem ég bar fram þessa fyrirspurn að kirkjan hefur vakið athygli á því í fjölmiðlum að hún átti talsverðar eignir í Þingvallabænum og hefur sett fram spurningar um að þegar búið sé að úthýsa kirkjunni eða presti úr Þingvallabænum hvað verði þá um eignir kirkjunnar. Ég hef sjálf ekkert mat á því en ég sættist ekki á að hæstv. dómsmrh. komi hér og felli ákveðna grein úr gildi og segi síðan í svari til þeirrar sem hér stendur að annað en þessi grein sé ekki til umræðu hér. Það er hæstv. dóms- og kirkjumrh. sem er að flytja þetta mál. Hæstv. forsrh. hefur komið með upplýsingar um að kirkjuþing vilji halda úti prestakalli tengdu Þingvöllum og þar sitji prestur. Forsrh. hefur upplýst að Þingvallabærinn verði ekki til afnota fyrir þann prest. Því hefur ekki verið svarað hvort koma eigi upp prestssetri, þetta er eins og bolti sem kastað er á milli. Ég er ekki að setja fram neitt álit á því en ég ætlast til þess að ráðherrar geti komið með betri svör en þau sem hafa komið fram við þessar aðstæður.