Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:55:50 (2785)

2000-12-05 23:55:50# 126. lþ. 40.14 fundur 285. mál: #A staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar# (Þingvallaprestakall) frv., ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:55]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ýmsar breytingar hafa átt sér stað á Þingvöllum, skipulegri starfsemi þar á undanförnum árum og missirum. Ég hygg að það sé flest af hinu góða. Það hefur verið lögð meiri rækt en áður við uppbyggingu staðarins og grundvallaratriðið í allri umræðu um Þingvelli er að virðing Þingvalla sé höfð í fyrirrúmi. Hluti af þeirri virðingu er að leggja rækt við kirkjuna á Þingvöllum, söguna og allan bakgrunninn sem er órjúfanlega tengdur þessum einum helgasta stað Íslendinga sem er þjóðareign.

Ég óttast ekki að kirkjan og þeir sem eiga að fjalla um málefni Þingvalla finni ekki lausn á því sem er við hæfi og ber þá reisn sem á að miða við. En ég hef til að mynda hugsað nokkuð til þess eins og hér kom reyndar fram hjá síðasta hv. ræðumanni, Guðmundi Árna Stefánssyni, að það gæti verið mjög spennandi að tengja Þingvallakirkju vígslubiskipsembættinu í Skálholti, tengja þessa tvo staði saman. Mér finnst grundvallaratriði að haldið sé ákveðinni hefð sem hefur skapast á nokkuð löngum tíma að þar sem Þingvellir eru hluti af Suðurlandskjördæmi, hluti af nýju Suðurkjördæmi, að þar sé ekki farið á milli svæða, heldur að þeir sem muni þjóna Þingvöllum og Þingvallakirkju verði staðsettir í því kjördæmi. Það finnst mér eðlilegra.

Ég ítreka að það hlýtur að vera á margan hátt spennandi að rækta þann þátt varðandi heimsóknir á Þingvelli í framtíðinni, með betra aðgengi að Þingvöllum, betri möguleikum á að ferðast innan Þingvalla fyrir gesti og gangandi, að þar sé boðið upp á þjónustu og þekkingu sem kirkjan getur veitt, bæði í nútíð, framtíð og fortíð. Það þarf ekki endilega að vera með fastri búsetu prests á Þingvöllum, það er hægt að leysa það á margan annan hátt. En fýsilegast væri að mínu mati að tengja vígslubiskupsembættið á einhvern hátt við þjónustu í Þingvallakirkju þar sem yfirstjórn væri á þann hátt. En það hlýtur að vera verkefni kirkjunnar að fjalla um þetta og annarra og umfram allt að tryggja að virðing og helgi staðarins sé varðveitt.