Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:59:50 (2786)

2000-12-05 23:59:50# 126. lþ. 40.15 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:59]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Með frv. þessu er lagt til að refsimörk í 173. gr. a vegna meiri háttar fíkniefnabrota verði hækkuð úr allt að 10 ára fangelsi í allt að 12 ára fangelsi. Til samræmis er einnig lögð til samsvarandi hækkun á refsimörkum í 2. mgr. 264. gr. laganna, vegna þvættisbrota sem rakin verða til fíkniefnabrota.

[24:00]

Við undirbúning þessa lagafrv. sem ég mæli hér fyrir í dag var sérstaklega skoðuð dómaframkvæmd Hæstaréttar allt aftur til ársins 1974 þegar ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga var lögfest. Þá voru einnig kannaðir nýlegir héraðsdómar í umfangsmiklum fíkniefnamálum sem kveðnir voru upp á þessu ári.

Í fylgiskjali með frv. er að finna reifanir á öllum þessum dómum. Þegar þessi dómaframkvæmd er skoðuð er óhætt að segja að þróunin hefur ótvírætt orðið sú að refsingar vegna alvarlegra fíkniefnabrota hafa verið þyngdar verulega. Á það einkum við í málum þar sem um mikið magn fíkniefna hefur verið að ræða og málum sem varða sérstaklega hættuleg fíkniefni jafnvel þótt magn þeirra hafi ekki verið mikið.

Varðandi hættuleg fíkniefni er rétt að nefna sérstaklega þann nýlega vágest sem nefndur er MDMA, en er betur þekktur undir nafninu ecstasy eða e-taflan. Þar er um að ræða mjög hættulegt fíkniefni sem hefur flókna verkun og er af sérfræðingum talin afar hættulegur vímugjafi. Í þeim dómum þar sem þetta fíkniefni hefur komið við sögu má vel merkja þyngri refsingar og má hér vísa sérstaklega til dóms Hæstaréttar frá 30. janúar 1997, sem var fyrsti dómurinn þar sem reyndi á innflutning þessa efnis. Í því máli var refsing fyrir innflutning á 964 töflum af efninu ákveðin fangelsi í sex ár. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. júní á þessu ári var refsing fyrir innflutning og sölu á mun meira magni fíkniefna, þar á meðal 5.850 e-töflum ákveðin fangelsi í níu ár og í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 26. október sl. var refsing fyrir vörslu og fyrirhugaða sölu á 14.292 töflum ákveðin níu ár.

Með þeirri þróun sem hefur átt sér stað hafa dómstólar nýtt nánast að fullu refsimörk 173. gr. a almennra hegningarlaga þegar um alvarleg fíkniefnabrot hefur verið að ræða. Á liðnum árum hefur lögreglunni tekist að upplýsa sífellt stærri og alvarlegri mál, en ekki er hægt að útiloka að sú þróun haldi að einhverju leyti áfram. Af þeim sökum verður löggjöfin að gera ráð fyrir viðhlítandi refsingum vegna alvarlegri brota en reynt hefur á hingað til. Þykir því nauðsynlegt að hækka refsimörkin svo að dómstólum verði gert kleift að ákveða þyngri refsingar, ef enn stærri og umfangsmeiri fíkniefnamál koma til kasta dómstólanna.

Að virtu samræmi milli refsimarka innan hegningarlaga þykir hæfilegt að refsimörk ákvæðisins verði allt að 12 ára fangelsi í stað tíu ára. Með þessari breytingu er lögð sérstök áhersla á alvarleika þessara brota og tekið undir það refsimat sem dómstólar hafa beitt hingað til. Með hækkun á refsimörkum ákvæðisins er hins vegar ekki gert ráð fyrir að það eitt út af fyrir sig leiði almennt til þyngingar á refsingum við fíkniefnabrotum heldur er verið að skapa dómstólum frekara svigrúm við ákvörðun refsingar sem þeir meta hæfilega. Þá er lagt til að refsimörk 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga vegna þvættisbrota verði einnig 12 ára fangelsi. Brot gegn ákvæðinu geta verið jafnalvarleg og sjálft fíkniefnabrotið og er því eðlilegt að þau varði sömu refsingu og brot gegn 173. gr. a.

Fíkniefnaneysla er alvarleg meinsemd í þjóðfélagi okkar sem víðtæk samstaða er um að taka föstum tökum og uppræta með öllum tiltækum ráðum. Refsingar ráða ekki úrslitum einar sér en þær eru nauðsynlegur þáttur í aðgerðum samfélagsins við fíkniefnavandanum, ásamt öflugri löggæslu, virkum forvörnum og meðferðarúrræðum.

Herra forseti. Ég hef nú í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.