Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 13:37:41 (2806)

2000-12-06 13:37:41# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[13:37]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar stöndum mjög vel að vígi. Við erum heimsmeistarar, eins og margoft hefur komið fram, í nýtingu á endurnýjanlegri orku. Tæplega 7% af orkunni sem við nýtum eru endurnýjanleg. Ekkert annað land í heimnum er með tærnar þar sem við erum með hælana í því. Við erum með afar lága stuðla varðandi heimilishald þannig að við stöndum okkur mjög vel í heimilishaldinu líka. Þar erum við einnig að nýta endurnýjanlega orku.

Við erum hins vegar með stærsta fiskiskipaflota á íbúa vegna þess að við erum fá og erum svo háð fiskveiðum. Þessu þurfum við öllu að halda til haga en á heildina litið má segja að við stöndum vel að vígi.

Eins og hér kom fram var sjötta aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins sem haldið var í Haag frestað og líklegt er talið að það komi saman aftur í maí á næsta ári. Það er stefnt að því. Menn féllu á tíma í Haag og það voru vonbrigði.

Við undirbúning fyrir fundinn í Bonn í maí munu íslensk stjórnvöld leggja á það áherslu sem fyrr að landgræðsla verði viðurkennd aðferð til kolefnisbindingar. Við munum líka undirbúa fundinn þannig að við munum hvetja til nýtingar á endurnýjanlegri orku. Allir umhverfisverndarsinnar sem fjalla um þessi mál leggja áherslu á að minnka notkun á kolum, olíu og kjarnorku en auka notkun á endurnýjanlegri orku. Það er nákvæmlega það sem Íslendingar eru að bjóða upp á.

Hið svokallaða íslenska ákvæði fjallar um nýtingu á endurnýjanlegri orku í litlum hagkerfum. Meginmarkmið ákvæðisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í iðnaðarframleiðslu. Tillagan veldur hnattrænni minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hún er í fullu samræmi við meginkmarkmið Kyoto-bókunarinnar.

Á fundinum í Haag var tillagan til umfjöllunar í undirnefnd fundarins. Hún var send áfram til framhaldsþingsins sem við munum halda í maí með nokkrum orðalagsbreytingum. Fyrir fundinn í Haag höfðu íslensk stjórnvöld átt viðræður við ríki ESB og Kanada varðandi breytingar frá fyrri drögum sérákvæðisins sem Ísland hafði lagt fram í Buenos Aires 1998. Í fyrsta lagi gerir tillagan ráð fyrir að utan losunarbókhaldsins sé einungis koldíoxíð þannig að flúorkolefni sem myndast við álframleiðslu og er fjórðungur af heildarlosun þeirra í dag verða talinn með í bókhaldi Íslands.

Í öðru lagi var sett þak sem er miðað við 1,6 millj. tonna á ári og þetta þak var sett til þess að ákvæðið yrði auðskiljanlegra fyrir aðrar þjóðir. Ég tel, herra forseti, góðar líkur á að niðurstaða náist í vor, ekki síst í ljósi þess að mjög lítið vantaði upp á að samningar næðust.

Í gær hófst fundur lykilríkja hjá ESB og hjá regnhlífarhópnum svokallaða á embættismannastigi í Kanada. Hugmyndin er sú að reyna að ná niðurstöðu milli þessara tveggja ríkjahópa sem e.t.v. yrði hægt að staðfesta á væntanlegum fundi umhverfisráðherra ESB 18. desember nk. Náist samkomulag milli þessara ríkja mun forseti ráðstefnunnar, Jan Pronk, umhverfisráðherra Hollands, geta nýtt það sem hluta af lokalausn sem við vonandi samþykkjum í maí. Það er því umfangsmikil vinna í gangi núna við að reyna að ná samningi fram.

Hvað sem samningaferlinu líður er ljóst að við verðum að takast á við aukna losun hér á landi. Það hefur komið oft fram hér áður að losun okkar er þannig uppbyggð að einn þriðji kemur úr sjávarútvegi, einn þriðji úr samgöngukerfinu og tæplega einn þriðji úr iðnaði. Stýrihópur ráðuneytisstjóra um loftslagsmál undir forustu umhvrn. er núna að vinna að framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem eiga að ná til næstu fimm ára. Markmiðið er að ná merkjanlegum árangri við að draga úr heildarlosun hér á landi. Það þarf að grípa til ýmissa stjórnvaldsaðgerða til að ná því markmiði.

Núna er verið að skoða kosti og galla ýmissa leiða. Til dæmis að kvótabinda innanlandsnotkun þar sem það á við, skattleggja eða gjaldbinda losun, styrkja beint eða beita skattaívilnunum vegna aðgerða til þess að draga úr losun og auka bindingu, beita fyrirmælum með lögum og reglugerðum og að síðustu koma á frjálsum samningum við atvinnulífið með því að minnka losun. Við höfum náð slíkum samningum fram m.a. við eitt iðnaðarfyrirtæki sem hefur dregið verulega úr losun í kjölfarið.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum segja að ég tel mjög miklar líkur á því að niðurstaða náist á ráðstefnunni í maí.