Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 13:47:35 (2809)

2000-12-06 13:47:35# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það voru sorgleg tíðindi fyrir heimsbyggðina alla þegar ljóst var að árangur næðist ekki á loftslagsráðstefnunni í Haag sem var frestað fyrir nokkru. Það var fróðlegt að fylgjast með framgöngu íslenskra stjórnvalda á ráðstefnunni en framlag íslensku sendinefndarinnar til þess gríðarlega verkefnis sem fyrir ráðstefnunni lá virtist fyrst og fremst ganga út á að ná sérsamningum fyrir Ísland. Ætlunin virtist síður að leggja eitthvað af mörkum til að samkomulag mætti nást á ráðstefnunni, heimsbyggðinni allri til framdráttar, þar á meðal Íslandi.

Aðalerindið var hinn íslenski sérsamningur og það endurspeglar kannski hvernig okkur Íslendingum hættir til að hugsa. Við höfum tiltölulega litlar áhyggjur af loftslagsbreytingum samanborið við margar aðrar þjóðir víða um heim sem hafa undanfarin ár fundið fyrir áhrifum þeirra af eigin raun. Það eru reyndar fátækustu ríki heims sem fara verst út úr hlýnun andrúmsloftsins. Þau hafa losað minnst af gróðurhúsalofttegundum á liðnum árum en eiga jafnframt minnsta möguleika á að verjast breytingunni. Það er þó ekki bara í fjarlægum löndum sem fólk hefur þegar fundið fyrir afleiðingum af loftslagsbreytingum. Óvenjumiklar rigningar, flóð og harðir frostakaflar er nokkuð sem Evrópubúar hafa fundið fyrir í auknum mæli á síðustu árum og að sjálfsögðu er það vandamál okkar Íslendinga líka.

Herra forseti. Við Íslendingar eigum erindi við umheiminn í umhverfismálum sem og á öðrum vettvangi. Við eigum að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi af ábyrgð og með reisn. Íslensk stjórnvöld halda ekki slíkri reisn meðan erindi þeirra við umheiminn snýst í sífellu um sérsamninga okkur til handa, um að fleyta rjómann ofan af alþjóðasamvinnunni en gefa sem allra minnst í staðinn. Hagsmunir Íslands geta nefnilega farið saman við hagsmuni annarra ríkja. Það er mikilvægt að hafa það í huga. Tökum þátt af ábyrgð og sýnum um leið að við höfum heilmikið til málanna að leggja.