Lausráðnir starfsmenn varnarliðsins

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:31:44 (2825)

2000-12-06 14:31:44# 126. lþ. 42.1 fundur 303. mál: #A lausráðnir starfsmenn varnarliðsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Svo hefur háttað til alllengi að hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hafa verið óvenjumargir lausráðnir starfsmenn og þeir hafa verið í þeirri stöðu óvenjulengi. Það er eðlilegt að athugað sé hver réttarstaða þeirra er gagnvart vinnuveitanda sínum og gagnvart ávinnslu réttinda eða stöðu áunninna réttinda. Því hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. um þetta efni sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,1. Hve margir starfsmenn varnarliðsins eru lausráðnir, hve hátt hlutfall eru þeir af heildarstarfsmannafjölda þess og hve lengi hafa þeir verið lausráðnir?

2. Hver er staða þeirra þegar kemur til fastráðningar?

3. Hver er staða þeirra sem hafa verið lausráðnir,

a. um skamma hríð,

b. lengur en þrjá mánuði,

c. lengur en eitt ár,

þegar kemur til fækkunar starfa eða annarra breytinga á starfsmannafjölda?

4. Hver er réttarstaða þeirra varðandi veikinda- og slysatryggingar, orlof, eingreiðslur vinnuveitenda,`` --- í samræmi við samninga --- ,,lífeyrisrétt, atvinnuleysisbætur og önnur vinnutengd réttindi?``