Lausráðnir starfsmenn varnarliðsins

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:33:10 (2826)

2000-12-06 14:33:10# 126. lþ. 42.1 fundur 303. mál: #A lausráðnir starfsmenn varnarliðsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Að því er varðar fyrstu spurninguna er rétt að upplýsa að íslenskir starfsmenn varnarliðsins eru nú 855. Þeir eru ýmist ráðnir tímabundið eða ótímabundið. Starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið eru nú 69 talsins sem eru 8,7% af heildarfjölda starfsmanna varnarliðsins. Það er mjög mismunandi hve lengi tímabundin ráðning stendur. Algengast er að fólk sé ráðið tímabundið í árstíðarbundin verkefni vegna veikinda eða í sérstök verkefni. Eins og á öðrum vinnustöðum þarf varnarliðið að ráða fjölda starfsmanna á sumrin til afleysinga. Á annað hundrað sumarstarfsmenn eru þar ráðnir.

Einnig er algengt að fólk sé þar í tímabundnum störfum á veturna. Oft er tímabundin ráðning hjá varnarliðinu framlengd ef þörf krefur og fjárveitingar og nauðsynlegar heimildir eru fyrir hendi. Ef ráðið hefur verið í tímabundið starf um nokkurn tíma er reynt að fá því breytt í fast starf. Tímabundnar ráðningar leiða oft til fastráðningar í sama starf eða önnur störf hjá varnarliðinu.

Nýlega fékk t.d. flotastöð varnarliðsins heimild til að fjölga fastráðnum starfsmönnum hjá slökkviliði flotastöðvarinnar um 27. Þessi stöðugildi verða nýtt til að fastráða starfsmenn sem hafa verið lausráðnir til starfa hjá slökkviliðinu og flugvallarþjónustunni, en slökkviliðið annast ýmsa þjónustu við flugvöllinn, t.d. snjóhreinsun flugbrauta og afgreiðslu herflutningavéla.

Að því er varðar aðra spurninguna þá ganga starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið að öllu jöfnu fyrir þegar fast starf á vinnustað þeirra losnar. Við ákvörðun um ráðningu er tekið tillit til hæfni, enskukunnáttu, starfsaldurs og starfsréttinda.

Að því er varðar þriðju spurninguna þá er því til að svara að ef fækka þarf starfsmönnum á vinnustað er starfsmönnum í tímabundnu starfi sagt upp áður en til uppsagnar á fastráðnu starfsfólki kemur. Þeir njóta að sjálfsögðu þess uppsagnarfrests sem þeir eiga samkvæmt kjarasamningum og landslögum. Við þessar aðstæður, þ.e. við uppsögn vegna fækkunar á starfsfólki, eru starfsmenn í tímabundnu starfi í sömu stöðu hvað varðar það hve lengi tímabundin ráðning þeirra hefur staðið. Með öðrum orðum er staða þeirra að þessu leyti ekki mismunandi eftir því hve lengi þeir hafa verið í tímabundnu starfi. Réttarstaða þeirra að öðru leyti ákvarðast af ákvæðum ráðningarsamnings þeirra og þeim kjarasamningi sem kaupskrárnefnd varnarsvæða hefur úrskurðað að gilda skuli um viðkomandi starf. Ef störfum á vinnustað fjölgar eiga starfsmenn í tímabundnu starfi sama möguleika á að sækja um starf og aðrir. Eins og kom fram áðan er við ákvörðun um ráðningu litið til hæfni umsækjenda, enskukunnáttu, starfsaldurs og starfsréttinda.

Eðli málsins samkvæmt hefur reynsla af starfi hjá varnarliðinu einnig áhrif þannig að staða þeirra sem þar hafa starfað er sterkari þegar til ákvörðunar um ráðningu kemur hvort sem þeir hafa starfað tímabundið eða eru í föstu starfi.

Að því er varðar síðustu spurninguna þá fer um réttarstöðu starfsmanna í tímabundnum störfum hjá varnarliðinu samkvæmt gildandi lögum á hverjum tíma og þeim kjarasamningum er launakjör þeirra miðast við samkvæmt ákvörðun kaupskrárnefndar varnarsvæða hverju sinni. Starfsmenn varnarliðsins vinna á mörgum og mismunandi sviðum og kjör þeirra í starfi miðast við marga og mismunandi kjarasamninga. Launakjör í einu starfi eru því engan veginn lýsandi fyrir launakjör hjá varnarliðinu almennt.