Kísilgúrvinnsla úr Mývatni

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:43:07 (2830)

2000-12-06 14:43:07# 126. lþ. 42.2 fundur 278. mál: #A kísilgúrvinnsla úr Mývatni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að ég sakna hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér í þingsalnum. Hann bar fram þessa fyrirspurn ásamt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur þannig að ég undrast það að hann skuli ekki vera við umræðuna. Mér dettur í hug hvort hann hafi e.t.v. misst kjarkinn í sambandi við að bera upp þessar fyrirspurnir.

Af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vitnaði til samkomulags sem gert hefði verið hér á árum áður þá finnast engin gögn í iðnrn. um samkomulag sem gert hafi verið þá, eins og hún orðar það, við umhverfisverndarsinna og umhvrn. um að loka verksmiðjunni. Ég tel því að þetta samkomulag sé ekki til staðar eða hafi ekki a.m.k. verið gert það formlega að það gæti verið gagn í þessu máli.

Ég vil lýsa ánægju með þá stöðu sem nú er komin upp, þ.e. að hæstv. umhvrh. hefur nú úrskurðað í málinu þannig að framtíð Kísiliðjunnar er a.m.k. bjarari en hún hefur verið alllengi.