Varúðarregla, 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:53:57 (2836)

2000-12-06 14:53:57# 126. lþ. 42.3 fundur 280. mál: #A varúðarregla, 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrirspurnina frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Því er til að svara í fyrsta lagi að Ríó-yfirlýsingin sem samþykkt var á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál 1992 er ekki þjóðréttarlega skuldbindandi fyrir Ísland eða önnur þátttökuríki. Í yfirlýsingunni felst hins vegar stefnuyfirlýsing sem aðildarríkin ætla sér að fylgja við framkvæmd umhverfismála. Varúðarreglan er ein af meginreglum umhverfisréttar í Ríó-yfirlýsingunni en með tilkomu hennar var mótuð sú meginstefna sem er jafnt grundvöllur löggjafar hér á landi um umhverfismál sem og annars staðar að umhverfið og náttúran skuli njóta vafans en ekki eins og áður að framkvæmdin skyldi njóta hans. Þessi útfærsla hefur ekki verið lögfest beinum orðum í löggjöf þótt hún liggi til grundvallar framkvæmd umhverfislöggjafar.

Varðandi aðra spurningu er því til að svara að þó að íslensk stjórnvöld séu ekki lagalega bundin af Ríó-yfirlýsingunni og varúðarreglan ein og sér sem slík hefur ekki verið lögfest hér á landi hefur í löggjöf á síðari árum verið tekið mið af markmiðum hennar svo sem í lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, og í lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum.

Ég vil, virðulegur forseti, af þessu tilefni lesa aðeins upp úr athugasemdum sem voru með frv. um mat á umhverfisáhrifum þegar þau voru til umfjöllunar, en þar segir að í tilskipun Evrópusambandsins 97/11/EB sé byggt á þeim meginreglum sem mótast hafa á síðustu árum og áratugum, jafnt á alþjóðavettvangi og í framkvæmd ríkja, þ.e. varúðarreglunni, mengunarbótareglunni, reglunni um verndarsjónarmið og reglunni um að mengun sé upprætt við upptök. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að leggja til að meginreglur þessar yrðu ekki settar inn í frv. sjálft þar sem efni reglnanna og orðalag þeirra er um margt óljóst og enn í mótun.

Komið hefur til tals að lögfesta varúðarregluna í ráðuneytinu en við nánari skoðun ráðuneytisins var fallið frá því að setja hana í sérstök lög en fella hana fremur inn í löggjöf þar sem við á eins og gert hefur verið. Vil ég árétta það sem segir líka í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu við Mývatn, en þar segir, virðulegur forseti:

,,Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er grunnþáttur í framkvæmd varúðarreglunnar. Því er framkvæmd þessa mats þáttur í framkvæmd varúðarreglunnar að því er varðar fyrirhugaða frekari vinnslu kísilgúrs úr Mývatni.``

Varðandi þriðju spurninguna er því til að svara að það er hlutverk umhvrh. að kveða upp úrskurði samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Í úrskurðum sínum verður ráðherra að styðjast við lögmæt sjónarmið. Í úrskurði um kísilgúrvinnslu úr Mývatni segir m.a. um 15. reglu Ríó-yfirlýsingarinnar, með leyfi virðulegs forseta:

,,Regla 15 í Ríó-yfirlýsingunni var samþykkt á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janero og fjallar um varúðarregluna en hún hljóðar svo: ,,Í því skyni að vernda umhverfið skulu ríki í ríkum mæli beita varúðarreglunni eftir því sem þau hafa getu til. Skorti á vísindalegri fullvissu, þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, skal ekki beitt sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll.````

Í úrskurði skipulagsstjóra er fallist á námuvinnslu með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin kveða á um að auknar rannsóknir þurfi að fara fram um vöktunaráætlanir og þá skyldu framkvæmdaraðila að gera tillögu að viðmiðunum um hvenær grípa skuli til mótvægisaðgerða auk þess sem gerð er krafa um að framkvæmdaraðilar leggi fram útfærðar hugmyndir og áætlanir um prófanir mögulegra mótvægisaðgerða varðandi ákveðna þætti áður en til framkvæmda kemur.

Með hliðsjón af framansögðu er það mat ráðuneytisins að varúðarreglunni hafi verið fylgt í hinum kærða úrskurði skipulagsstjóra. Ég endurtek, það er mat mitt og ráðuneytisins að varúðarreglunni hafi verið fylgt því ekki má gleyma að í úrskurðinum segir að kísilgúrnám á svæði II muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að uppfylltum þeim tólf ítarlegum skilyrðum sem sett eru fram í úrskurðinum og fylgja ber.

Varðandi fjórðu fyrirspurnina, virðulegur forseti, er því til að svara að varúðarreglan gerir ráð fyrir því að umhverfisáhrif séu metin áður en ráðist er í framkvæmdir og á grundvelli þeirra gagna sem aflað er í matsferlinu sé ákvörðun tekin. Að því leyti er varúðarreglan fyrirbyggjandi aðgerð. Hins vegar eru fyrirbyggjandi aðgerðir, t.d. mengunarvarnir af öðrum toga ætlaðar til þess að ná tilteknum umhverfismarkmiðum og koma í veg fyrir umhverfisskaða.